Frétt

Fossar í fyrirrúmi á Austurlandi

24. október 2008

Landsvirkjun hefur tekið saman yfirlit um fossa á áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar og hver áhrif virkjunarinnar verða á þá. Þetta yfirlit hefur verið gefið út í skýrslu sem sjá má á vef Sjálfbærniverkefnis Landsvirkjunar og Alcoa.

Verkfræðistofa Austurlands tók það að sér fyrir Landsvirkjun að gera örnefnaskrá og örnefnakort fyrir svæðið við og undir Hálslóni. Þetta verk hefur verið unnið með aðstoð Helga Hallgrímssonar, Páls Pálssonar og fleiri, og er örnefnakortið nú tilbúið.

Við hátíðlega athöfn á Egilsstöðum þann 21. október, afhenti Friðrik Sophusson, Svavari Sigmundssyni hjá Örnefnanefnd skýrsluna.

Kynning á skýrslu um fossa á Austurlandi

Frá afhendingu skýrslunnar
(Mynd: Austurglugginn, Steinunn Ásmundsdóttir)

Foss sem rennur á yfirfalli Hálslóns hefur nú verið valið nafn, en það er Hverfandi. Valið fór fram með þeim hætti að starfsmenn Landsvirkjunar voru beðnir um að senda inn tillögur að nöfnum. Starfsmenn nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar hefðu veitt ráðgjöf varðandi nafnvalið og fékk nafnið Hverfandi jákvæða umsögn.

Umsögn nafnfræðisviðs Stofnunar Árna Magnússonar var meðal annars svohljóðandi: „Ýmis fossanöfn í landinu eru sömu gerðar, hafa –andi sem viðskeyti, s.s. Dynjandi, Rjúkandi og Mígandi. Það skal tekið fram að nafnið er í karlkyni  og er því Hverfanda í öllum aukaföllum“.

Viðhengi
Skýrsla: Áhrif Kárahnjúkavirkjunar á fossa

 

Fréttasafn Prenta