Frétt

Rannsóknaboranir í Gjástykki í Þingeyjarsveit

7. nóvember 2008

Landsvirkjun áformar rannsóknaboranir í Gjástykki, í Þingeyjarsveit. Rannsóknirnar eru nauðsynlegur liður í öflun upplýsinga um hvort vinnanlegan jarðhita sé þar að finna.

Í 6. gr. og 2. viðauka, tl. 2 c i, í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, kemur fram að djúpborun og þar með talin borun rannsóknahola á háhitasvæðum, sé tilkynningarskyld framkvæmd. Framkvæmdin er háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt ákvörðun Skipulagsstofnunar í júlí 2008. Landsvirkjun hefur ákveðið að meta umhverfisáhrif af borun allt að þriggja hola á sama borteig.

Matsvinnan er hafin og hér á síðunni má nálgast drög að tillögu að matsáætlun vegna rannsóknaborana. Í tillögunni er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði lýst. Fjallað er um þá umhverfisþætti sem teknir verða fyrir í matinu. Einnig er tilgreint hvaða gögn eru fyrir hendi sem nýtt verða við matið og hvaða rannsóknir er fyrirhugað að ráðast í vegna mats á umhverfisáhrifum.

Allir hafa rétt til að kynna sér drög að tillögu að matsáætlun og leggja fram athugasemdir. Vinsamlegast beinið fyrirspurnum, athugasemdum og ábendingum til Alberts Guðmundssonar, á netfangið albert hjá lvp.is með afriti til Hauks Einarssonar, á netfangið haukur hjá mannvit.is.

Frestur til að gera athugasemdir er til 26. nóvember 2008.

Drög að tillögu að matsáætlun vegna rannsóknaborana í Gjástykki

 

Fréttasafn Prenta