Frétt

Sultartangastöð er komin aftur í rekstur

12. nóvember 2008

Stöðin vinnur raforku með hálfum afköstum og eykur það áreiðanleika og framboð orku fyrir komandi vetur.

Eins og greint hefur verið frá hafa orðið alvarlegar bilanir í spennum Sultartangastöðvar bæði í ár og í lok fyrra árs. Grunnorsök bilananna hefur nú verið rakin til einangrunarolíu sem sett var á spennana í upphafi. Ákveðin efni í olíunni hafa valdið tæringu á einangrun. Tæringin leiddi til þess að yfirspenna sem spennarnir eiga að þola hefur valdið alvarlegum skemmdum. Í ljós er komið að á undanförnum misserum hafa nokkrir álíka gamlir spennar í heiminum orðið fyrir sams konar bilunum. Gert verður við hinn spenni Sultartangastöðvar erlendis hjá framleiðanda hans og standa vonir til að hann komist aftur í rekstur um mitt næsta ár.

Þar sem óvíst er um endingu spennanna eftir viðgerð hefur verið ákveðið að kaupa nýja spenna í stað þeirra gömlu. Búið er að ganga frá kaupunum og er áætlað að nýju spennarnir verði teknir í rekstur í október 2009 og febrúar 2010.

Nánari upplýsingar um Sultartangastöð >>

 

Fréttasafn Prenta