Frétt

Veðurómur - útvarpslistaverk við Fljótsdalsstöð

26. janúar 2009
 
Útvarpslistaverkið veðurómurHljóðlistaverkið Veðurómur myndar gagnvirkt samband milli Kárahnjúka og Fljótsdals. Sambandinu er komið á með því að tengja sjálfvirka veðurathugunarstöð Landsvirkjunar, sem staðsett er á Kárahnjúkum, við hljóðverkið.
 

Hljóðverkið stjórnast af mælieiningunum raka, hitastigi, vindhraða og lofþrýstingi. Hvert þrep viðkomandi mælieiningar myndar sitt eigið hljóð. Tölvubúnaður í Fljótsdal sem tengdur er listaverkinu aflar sér upplýsinga um veðrið á Kárahnjúkum með 10 mínútna millibili. Að síðustu er veðurgögnunum breytt í hljóð sem er útvarpað með útvarpssendi við Fljótsdalsstöð.

Alltaf er því fjórum hljóðum útvarpað á sama tíma sem mynda hljóðverk hverrar stundar fyrir sig. Hljóðin endurtaka sig í sífellu þar til nýjar upplýsingar berast. Miðað er við að útvarpsmerkið náist í um 10 km fjarlægð frá hlaðhúsinu við Fljótsdalsstöð. Upplýsingar um tíðni útvarpssendisins verða á umferðarskiltum á nærliggjandi vegum.

Höfundur listaverksins, Helgi Kristinsson, nálgast verkið með það í huga að nýta náttúruna og umbreyta henni í manngert form. Ferðalag upplýsinganna (verksins) og ósýnileiki eru einnig stór hluti af hugmyndinni. Helgi hefur að leiðarljósi ferðalag vatnsins frá Kárahnjúkum, niður í Fljótsdalinn, umbreytingu þess í rafmagn og birtingu þess í Fljótsdalnum að lokinni ferðinni neðanjarðar. Með listaverkinu tekst Helga að yfirfæra hringrás vatnsins í hringrás upplýsinga; úr náttúrunni, í gengum tölvu, ljósleiðara, aðra tölvu, útvarpssendi og aftur út í náttúruna.

Listaverkið spilar sitt eigið hljóðverk þar sem mælieiningarnar eru stjórnendur. Þar af leiðandi er vald listamannsins orðið lítið. Listamaðurinn er höfundur grunnhljóðanna í verkinu en hann ræður ekki hvernig þau raðast saman.
 
Í umsögn dómnefndar um listaverkið veðuróm segir:
Hugmyndin að baki verkinu er snjöll; notast er við veðurmæla við Hálslón sem senda upplýsingar til tölvu sem túlkar mismunandi gildi á hverjum tíma og umbreytir í hljóð og tóna sem hlýða má í útvarpi í nágrenninu. Heillandi hugmynd sem færir okkar ástkæra umtalsefni, veðrið, í nýjan búning og víkkar skilning okkar á því með því að færa það í hljóðrænan búning.
Við vinnslu á Veðurómi notaðist Helgi við hljóðfæri og hljóðgerfla sem og hljóð úr náttúrunni, svo sem vatnsnið, klakabresti, vind og raflínuhljóð. Listamaðurinn segir að ógerlegt sé að búa til hljóð fyrir veður og verði það aldrei nema klór mannsins til að ná valdi á náttúrunni.
 
Við vinnslu verksins sættir hann sig við og er meðvitaður um að hann er aðeins að gera manngerðan útúrsnúning á náttúrunni. Þessi útúrsnúningur á náttúrunni, ósýnileiki verksins og hringrás upplýsinga er það sem gerir verkið að því sem það er.
 
 

Fréttasafn Prenta