Frétt

Landsvirkjun styrkir ekki stjórnmálaflokka

25. mars 2009

Hér er um misskilning að ræða. Hið rétta er að Landsvirkjun hefur keypt jólakveðjur í ýmis landshlutablöð ár hvert þegar eftir því hefur verið leitað. Nokkur blaðanna sem óskað hafa eftir jólakveðjum eru landsmálablöð á vegum stjórnmálaflokka. Kaup Landsvirkjunar á slíkum jólakveðjum hafa dreifst á ýmis blöð þar á meðal til flestra ef ekki allra stjórnmálaflokka á undanförnum árum.

Meint styrkupphæð frá Landsvirkjun til Sjálfstæðisflokksins sem fram kemur í samantekt Ríkisendurskoðunar virðist vera vegna kaupa á jólakveðju í Suðurland. Upphæðin kr. 9.633 vísar til jólakveðju fyrir kr. 12.000 að frádregnum vsk. Slíkar jólakveðjur virðast almennt ekki vera skilgreindar sem styrkir í samantekt Ríkisendurskoðunar og þess vegna er hér misskilningur á ferðinni.

Landsvirkjun hefur ekki stutt stjórnmálaflokka með fjárframlögum enda er fyrirtækið í opinberri eigu.

Til glöggvunar má nefna að um jólin 2007 og áramótin 2007/2008 keypti Landsvirkjun jóla- og áramótakveðjur í blöðum fjölmargra aðila víða um land fyrir lágar upphæðir. Þar má nefna: Feyki, Einingu-Iðju, Þingmúla, Gluggann Suðurlandi, Suðurland, Samfylk­inguna Mosfellsbæ, Sunnlenska fréttablaðið, Hjálparsveitina Dalbjörgu, Eiðfaxa, Sveitarstjórnarmál, Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi, Björgunarfélag Árborgar og Björgunarsveitina Ársæl.

 

Fréttasafn Prenta