Frétt

Um dómsmál vegna bóta út af Kárahnjúkavirkjun

11. mars 2009
 
Sjónvarpið, RÚV, birti 7. mars frétt um stöðu dómsmála sem tengjast Kárahnjúkavirkjun og bótum til landeigenda. Landsvirkjun harmar að þar skuli einhliða rakin sú skoðun viðmælenda að um svívirðilega framkomu gagnvart landeigendum sé að ræða. Sú ásökun verður vart skilin öðruvísi en að Landsvirkjun eigi þar hlut að máli. Ekki verður séð að fréttastofa Ríkisútvarpsins hafi á neinn hátt reynt að meta réttmæti fullyrðinga viðmælendanna eða gefið öðrum sem málinu tengjast færi á að koma á framfæri sinni afstöðu.
 
Af því tilefni er eðlilegt að benda á eftirfarandi:
  • Við upphaf framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun leitaðist Landsvirkjun við að koma á samningum við landeigendur en það tók landeigendurnar nokkurn tíma að skipuleggja sig til þess að samningaviðræður gætu farið fram.
  • Viðræður milli Landsvirkjunar og landeigenda tóku eitt ár og lauk 2005 með samningi.
  • Handhafar meirihluta vatnsréttindanna voru sáttir við niðurstöðu matsnefndar sem byggðist á samningnum. Þeir fengu greitt samkvæmt því og lauk þeirra málum þar með.
  • Nokkur fjöldi landeigenda hefur látið reyna á niðurstöður matsnefndarinnar fyrir dómstólum. Það er þeirra réttur en þeir gera það á eigin ábyrgð og kostnað.
  • Landsvirkjun hefur engu að síður komið til móts við þá landeigendur sem höfðað hafa mál og greitt þeim helming þeirra bóta sem matsnefndin sem starfaði á grundvelli samningsins frá 2005 úrskurðaði þeim. Hins vegar hefur fyrirtækið tekið til varna og lætur reyna á sín sjónarmið eins og venja er í slíkum málum.
  • Framgangur dómsmálanna er í eðlilegum farvegi og málsaðilum verður ekki kennt um að þau taki sinn tíma.
Um bætur vegna vatnsréttinda
Á árinu 2004 tók sig saman hópur vatnsréttarhafa á Jökuldal til að koma fram gagnvart Landsvirkjun í samningaviðræðum um vatnsréttindi og bætur. Frá því snemma á árinu 2003 hafði Landsvirkjun árangurslaust reynt að stuðla að því að samningaviðræður gætu farið fram gagnvart einhvers konar samtökum landeigenda.
 
Eftir samningaviðræður sem stóðu allt árið 2005 var undirritaður samningur hinn 13. desember 2005, um framsal og yfirtöku vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar og um matsnefnd til að ákvarða endurgjald fyrir þau. Yfirgnæfandi meirihluti landeigenda kaus að eiga aðild að þessum samningi.
 
Störf matsnefndarinnar hófust snemma árs 2006 og lauk þeim með úrskurði hennar hinn 22. ágúst 2007. Í samningi aðila var gert ráð fyrir því að unnt væri fyrir Landsvirkjun eða landeigendur að láta reyna á niðurstöðu matsnefndarinnar fyrir dómstólum í samræmi við almennar reglur þar um. Landsvirkjun bauð landeigendum greiðslu í samræmi við niðurstöðu úrskurðarins og kaus hluti rétthafa (sem átti um 1/3 vatnsréttindanna) að una niðurstöðunni og ljúka málinu þar með (því til viðbótar er 1/3 vatnsréttindanna innan þjóðlendu).
 
Hluti landeigenda, fyrst og fremst landeigendur við Jökulsá á Dal, kusu hins vegar að höfða 39 mál gegn Landsvirkjun er þingfest voru 15. janúar 2008 til þess að freista þess að fá ákvarðað hærra endurgjald en matsnefndin hafði úrskurðað. Er um almennt dómsmál að ræða og bera málsaðilar ábyrgð á sínum kostnaði í samræmi við almennar reglur. Landsvirkjun hafði áskilið sér rétt til að taka til varna ef svo færi að einhverjir mundu ekki una niðurstöðu matsnefndar og skilaði því gagnstefnum um miðjan febrúar 2008.
 
Landsvirkjun greiddi á þessum tímapunkti þeim landeigendum sem standa að dómsmálunum helming þeirra bóta sem hin sérstaka matsnefnd taldi hæfilegar. Þannig hafa allir þeir sem standa að dómsmálunum fengið helming bótanna greiddar, nema í einu máli er varðar landsvæði sem ákvarðað hefur verið þjóðlenda.
 
Landsvirkjun vill vegna framkominna frétta RÚV leggja áherslu á að dómsmálið er höfðað að frumkvæði landeigenda en ekki Landsvirkjunar. Dómsmál sem þessi taka sinn tíma, m.a. vegna þess að báðir aðilar hafa rétt til þess að dómkveðja matsmenn og gefa verður þeim eðlilegt ráðrúm til að skila sínum niðurstöðum. Óviðráðanlegar aðstæður hafa tafið vinnu matsmanna og geta málsaðilar ekkert að því gert. Í ljósi alls þessa er málshraði eðlilegur og verður Landsvirkjun með engu móti kennt um að niðurstaða er ekki fengin í mál þeirra landeigenda sem kusu að höfða mál til að krefjast hærri bóta en matsnefndin taldi vera hæfilegar.
 
Um vatnaflutninga
Í frétt RÚV kom fram að matsmál vegna hugsanlegra bótagreiðslu fyrir not á farvegi Lagarfljóts vegna vatnaflutninga frá Jökulsá á Dal sé ekki hafið. Matsmálið er rekið að kröfu og á ábyrgð Gunnars Jónssonar á Egilsstöðum. Ræður Landsvirkjun engu um málshraða í því máli.
 
Hins vegar vill Landsvirkjun taka fram að fyrirtækið telur að nýting náttúrulegs farvegar Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts vegna vatns frá Kárahnjúkum sé matsbeiðanda meinalaus og falli þannig undir hinn svokallaða meinalausa afnotarétt (jus innoxiæ utilitatis), sem viðurkenndur hefur verið og heimilaður frá fornu fari, svo sem í Grágás og Jónsbók og viðgengst enn í dag.
 

Fréttasafn Prenta