Frétt

Lítil þensluáhrif Kárahnjúkavirkjunar

7. apríl 2009

Lítil þensluáhrif Kárahnjúkavirkjunar

Íslendingar búa yfir gnótt náttúruauðlinda. Þar ber helst að nefna fiskinn í sjónum, fagra náttúru, landgæði, fallvötn og jarðhita. Allar eiga þessar auðlindir það sameiginlegt að hægt er að nýta þær til að skapa verðmæti og gjaldeyristekjur sem þjóðina sárlega vantar nú. Vegna legu landsins er þó ekki hægt að flytja orkuna beint út eins og t.d. Norðmenn gera. Það þarf að umbreyta henni í fast form áður. Hagkvæmasta leiðin til að flytja út orku er að nota rafmagnið til framleiðslu á áli, kísiljárni og öðrum iðnvarningi eða innleiða aðra orkufreka hátæknistarfsemi erlendis frá. Við breytum innlendri orku í gjaldeyristekjur landsmönnum til hagsbóta.

Landsvirkjun er verðmæt eign
Flestir Íslendingar skilja þetta og gleðjast yfir velgengni okkar á þessu sviði en úrtölumennirnir eru nokkrir og háværir. Þannig hefur háttsettur embættismaður reiknað út að virðisauki af álframleiðslu sé að mestu fluttur úr landi og að Íslendingar hafi rækilega samið af sér í samningum við auðhringana sem álverin eiga. Hann valdi sér árið 2007 til viðmiðunar þegar álverð var mjög hátt, 2.900 dollarar tonnið vegna óeðlilegs ástands á hrávörumörkuðum heimsins. Þess má geta að álverð er nú 1.500 dollarar. Skautað var framhjá því að verðmæti Landsvirkjunar sem er í hreinni eign Íslendinga er gríðarlegt og mikið af þeim verðmætum má rekja beint til sölu raforku til álframleiðslu. Samkvæmt ársreikningi sl. árs er hrein eign Landsvirkjunar hátt í 1.4 milljarð Bandaríkjadala, en það jafngildir tæplega 170 milljörðum króna á áramótagengi. Þá má nefna að fyrirtækið skilaði 185 m USD í fé frá rekstri sl. ár. Allt bendir til að Landsvirkjun geti greitt niður skuldir sínar á vel ásættanlegum árafjölda.

Kárahnjúkavirkjun og þenslan
En þeir eru fleiri úrtölumennirnir. Þannig telja sumir að bygging Kárahnjúkavirkjunar og Fjarðaáls í Reyðarfirði sé upphafspunktur þeirrar þenslu sem verið hefur hér á Íslandi undanfarin ár og að fjárfesting Landsvirkjunar í virkjuninni sé að hluta orsök ofþenslunnar. Þetta stenst engan veginn skoðun. Það er rétt að bygging virkjunarinnar stóð á árunum 2004 til 2006 og mátti rekja allt að 1/3 fjárfestingar í landinu til hennar og Fjarðaáls. Á sama tíma sprakk fjármálakerfið á Íslandi út og ótrúlegu fjármagni var beint inn í hagkerfið. Þetta fjármagn fór m.a. inn á húsnæðismarkaðinn sem varð til þess að húsnæðisverð hækkaði hér á örskömmum tíma upp í hæstu hæðir.

Athyglisvert er að skoða þróun verðbólgu með og án húsnæðis á þessu tímabili. Í byrjun árs 2003 var verðbólga með húsnæði tæpt 1,5% sem var vel innan verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands. Verðbólga án húsnæðis var innan við 0,5% á sama tíma. Verðbólga án húsnæðis komst hæst í tæp 3% um mitt ár 2004 en lækkaði síðan hratt og var um 1% í byrjun árs 2007. Verðbólga með húsnæði hækkaði hins vegar jafnt og þétt allt frá byrjun árs 2003 og var orðin rúm 4% í byrjun árs 2007. Þessar talnarunur sýna að verðbólgan var fyrst og fremst drifin áfram af hækkun fasteignaverðs tímabilið sem Kárahnjúkavirkjun var í byggingu. Fasteignabólan var aftur drifin af gnótt fjármagns á Íslandi í kjölfar þess að bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn rétt um miðjan áratuginn. Þess má til gamans geta að efnahagsreikningur bankanna um mitt ár 2008 voru rétt rúmir 14.000 milljarðar króna en fyrir þá upphæð hefði mátt byggja meira en 100 Kárahnjúkavirkjanir og að á um 4 árum lánuðu bankarnir um 500 milljarða króna til íbúðalána en fyrir þá hefði mátt byggja allt að fjórar slíkar virkjanir. Þannig hefur öllu verið snúið á haus í þessari umræðu.

Ný störf og gjaldeyristekjur
Það er hins vegar ánægjulegt að geta sagt frá því að talið er að verkefnið í heild sinni skapi mörg hundruð störf til framtíðar og það hefur orðið gríðarleg lyftistöng fyrir Mið-Austurland. Jafnframt koma tekjur af verkefninu í beinhörðum gjaldeyri sér vel fyrir Ísland núna þegar svo illa árar.

Það er eðlilegt að framkvæmdir séu umdeildar og sjálfsagt að um þær sé rætt á opinskáan hátt. Hins vegar verður málatilbúnaðurinn að finna sér stað í raunveruleikanum. Ákvörðun eigenda Landsvirkjunar um byggingu Kárahnjúkavirkjunar var tekin á lýðræðislegan hátt á Alþingi, í borgarstjórn Reykjavíkur og bæjarstjórn Akureyrar. Stjórn fyrirtækisins og sérstök eigendanefnd fór yfir málið og tók ákvörðun m.a. á grundvelli arðsemismats sem yfirfarið var af óháðum aðilum. Lánardrottnar skoðuðu það einnig. Framkvæmdirnar gengu tiltölulega vel, þótt verkefnið hafi verið flókið. Kostnaður fór aðeins fram úr áætlun, en á móti kemur að virkjunin framleiðir heldur meira rafmagn en áætlað var og hefur það þegar verið selt til álversins í Reyðarfirði.

Friðrik Sophusson

Fréttasafn Prenta