Frétt

Sterk fjárhagsstaða Landsvirkjunar

8. apríl 2009

Það er athyglisvert að sjá hvernig umfjöllun í fjölmiðlum getur snúið staðreyndum upp í andhverfu sína. Landsvirkjun hefur kynnt að fyrirtækið geti staðið við allar skuldbindingar út árið 2010 án þess að taka ný lán. Það þykir öfundsvert við núverandi aðstæður bæði hjá innlendum og erlendum fyrirtækjum. Sumir hafa túlkað þetta á þann veg að Landsvirkjun sé tæknilega gjaldþrota. Það er kenning sem ekki stenst. Eigið fé Landsvirkjunar nemur tæpum 1,4 milljarði dollara (173 milljörðum króna á núverandi gengi) og laust fé er tiltækt fram til ársloka 2010. Þá er eiginfjárhlutfall Landsvirkjunar tæplega 30% þrátt fyrir miklar fjárfestingar undanfarin ár. Það er því öðru nær en að tæknilegt gjaldþrot blasi við.

Þau er fá fyrirtækin hérlendis sem erlendis sem ekki þurfa á endurfjármögnun að halda á næstu mánuðum. Fæst eru í þeirri stöðu að hafa jafn rúma lausafjárstöðu og Landsvirkjun. Öllum er ljóst að lánsfjárkreppa ríkir á alþjóðlegum fjármálamarkaði með alvarlegum afleiðingum fyrir fyrirtæki og einstaklinga um allan heim. Staða Landsvirkjunar er að því leyti erfiðari en sambærilegra fyrirtækja erlendis að skuldahlutfall er hátt og orðspor og traust Íslands á alþjóðlegum lánsfjármörkuðum hefur beðið mikinn hnekki. Ástæðulaust er samt að ætla að endurfjármögnun takist ekki þótt sýnt sé að lánskjör fyrirtækisins verði ekki eins góð og verið hefur undanfarin ár.

Rekstur Landsvirkjunar skilaði tæplega 185 milljónum dollara á síðasta ári í handbæru fé. Það er fé sem nýta má til að greiða niður skuldir fyrirtækisins. Ekkert bendir til annars en að tekjuflæði Landsvirkjunar á þessu ári skili áfram verulegum fjárhæðum. Rekstur Landsvirkjunar eftir tilkomu Kárahnjúka­virkjunar er traustari en nokkru sinni. Þótt útlit á alþjóðlegum mörkuðum sé dökkt nú um stundir virðist fyrirtækið þó hafa alla burði til að takast á við erfiðleikana sem efnahagskreppan hefur í för með sér.

Friðrik Sophusson

Fréttasafn Prenta