Frétt

HydroKraft Invest

15. apríl 2009

Tilefni fréttaflutningsins virðist vera tölvupóstur til fréttastofanna skv. því sem annar fréttamaðurinn sem í hlut á hefur upplýst. Einnig er vitnað í annarri fréttinni til þess að stjórnarmenn í Landsvirkjun (LV) sem hættu í stjórn félagsins um áramótin 2006/2007 kannist ekki við umfjöllun í stjórn LV um þessi áform. Þau hljóti því að vera sprottin upp strax eftir áramótin. Reyndar markaði stjórn LV stefnu og skipulag í útrásarmálum LV í ágúst 2006 þar sem m.a. var gert ráð fyrir samstarfi við fjármálafyrirtæki og lögð drög að stofnun sérstaks eignarhaldsfélags með takmarkaðri ábyrgð til að annast útrásarverkefni.

Reynt hefur verið um áratugaskeið að koma þekkingu og færni íslenskra sérfræðinga á sviði orkuvinnslu á framfæri erlendis. LV og önnur orkufyrirtæki voru til skamms tíma leiðandi eigendur að Enex sem einkum lagði áherslu á að finna verkefni á sviði jarðhita á alþjóðlegum vettvangi. Það hefur löngum verið ljóst að helsti dragbítur á útrás í orkumálum hefur verið skortur á fjármagni. Með örum vexti íslensku bankanna á undanförnum árum virtist samstarf orkufyrirtækja og bankanna vera vænleg leið til landvinninga. Enda fór það svo að Glitnir og FL Group létu til sín taka snemma árs 2007 og stofnuðu Geysir Green Energy (GGE) sem fljótlega eignaðist stóran hlut í Enex og undirbjó samstarf við OR í gegnum Reykjavík Energy Invest (REI) eins og frægt er. Þetta leiddi til þess að LV taldi hagsmunum sínum best borgið með því að selja hlut sinn í Enex til GGE í október 2007.

Það sem LV gerði til að skapa sér sem besta möguleika í útrás var að stofna annars vegar fyrirtækið sem nú heitir LVP (en undir það fellur það sem áður var verkfræði- og framkvæmdasvið LV) og hins vegar helmingafélagið HKI með Landsbankanum. Þetta var snemma árs 2007. HKI fékk engan einkarétt á þekkingu og færni LV eða Landsbankans ólíkt því sem var uppi á teningnum með REI. Eigendurnir gátu áfram starfað að útrásarverkefnum á eigin vegum sem og með öðrum samstarfsaðilum.

Getgátur um tengsl milli styrkja til Sjálfstæðisflokks og samstarfs Landsbanka og LV í útrásarmálum standast ekki skoðun. Harma ber að tvær fréttastofur skuli birta tilefnislaust hálfkveðnar vísur og dylgjur í þá veru.

Þorsteinn Hilmarsson

Fréttasafn Prenta