Frétt

Styrkir úr orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar afhentir

17. mars 2009

Tilgangur orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála. Markmið hans er að veita styrki til námsmanna, rannsóknarverkefna við háskóla og stofnanir þeirra, svo og til annarra stofnana og fyrirtækja. Jafnframt er markmið sjóðsins að gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri og tryggja að þær rannsóknir sem sjóðurinn styrkir samrýmist umhverfisstefnu Landsvirkjunar.

Í samræmi við tilgang sjóðsins og markmið hans skiptist úthlutun í þrjá flokka:

A. - Styrkir til nemenda í meistara- eða doktorsnámi
B. - Rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála
C. - Almennar virkjunarrannsóknir

Stjórn sjóðsins fer með úthlutanir í flokkum A og B að undangenginni auglýsingu eftir umsóknum en Landsvirkjun úthlutar styrkjum í flokki C án auglýsingar.

Í flokki B á sviði umhverfis- og orkumála bárust að þessu sinni 55 nýjar umsóknir og 10 framhaldsumsóknir með samanlögðum óskum um 140 m.kr. til verkefna á árinu 2009 en til ráðstöfunar voru 39 m.kr. Alls bárust 24 umsóknir í flokki A til meistara- og doktorsnáms en til ráðstöfunar í þeim flokki voru 7 m.kr. Þar sem umsóknir um styrki voru ríflega þrisvar sinnum hærri en ráðstöfunarféð er ljóst að margar vel hæfar umsóknir gátu ekki fengið styrk að þessu sinni.

Orkurannsóknasjóður - Styrkþegar 2009
Styrkþegar, aðstandendur þeirra og stjórn orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar ásamt Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, og Friðriki Sophussyni, forstjóra Landsvirkjunar.
 
Flokkur A Námsstyrkir
 
Til doktorsnáms
Kristín Eiríksdóttir hagfræðingur. Doktorsverkefni hennar snýst um verðmætamat á umhverfisgæðum og hagkvæma forgangsröðun verkefna.
 
Lára Jóhannsdóttir rekstrarfræðingur. Ætlun hennar er að skoða umhverfisstefnu fjármálafyrirtækja á Norðurlöndum og meta hvort hún hefur áhrif á rekstrarniðurstöður fyrirtækjanna.
 
Þórunn Pétursdóttir landgræðsluvistfræðingur. Verkefni hennar fjallar um vistfræðilegan og samfélagslegan ávinning af endurheimt náttúrugæða á röskuðu landi.
 
Til meistaranáms
 
Egill Maron Þorbergsson vélaverkfræðingur. Verkefni hans snýst um nýja aðferð til að beisla orku sjávaraldna.
 
Erna Kristín Blöndal lögfræðingur. Verkefni hennar fjallar um aðskilnað á milli einkaleyfis- og samkeppnishluta raforkufyrirtækja samkvæmt raforkulögum. Sérstaklega verður fjallað um jarðvarmavirkjanir sem framleiða bæði heitt vatn og rafmagn.
 
Ingi Þór Þ. Wium hagfræðingur. Verkefni hans nefnist kostnaðargreining á lagningu háspennustrengs frá Íslandi til Skotlands eða Norðurlandanna og áhrif hans á innlendan raforkumarkað.

Lilja Magnúsdóttir vélaverkfræðingur. Hún mun þróa ólínulegt einingalíkan af háhitaborholu til að greina áhrif hitaþenslu og holrýmis í steypu á kiknun fóðringa og skemmdir á borholum.
 
Linda Georgsdóttir vatnaverkfræðingur Markmið verkefnis hennar er að rannsaka magn aurburðar inn í uppistöðulónið Norðursjó í Skaftá ef til Skaftárveitu kemur og gera spálíkan fyrir setmyndun í lóninu.
 
Ólafur Guðmundsson rafmagns- og tölvuverkfræðingur. Nám hans snýst um sjálfvirkni, bestun, líkanagerð, gervigreind og sjálfvirkni.
 
Ruth Mary Shortall reiknifræðingur. Verkefni hennar er að skilgreina sjálfbærnivísa fyrir nýtingu jarðhita og besta verklag við notkun þeirra.
 
Sigrún María Kristinsdóttir bókmenntafræðingur. Verkefni hennar snýst um íbúalýðræði, álver og notkun náttúruauðlinda.
 
Auk þess fela tíu verkefnastyrkir í sér laun til doktorsnema og meistaranema.
 
Flokkur B Verkefnastyrkir
 
Styrkt voru 14 ný verkefni og 10 framhaldsverkefni. Heildarupphæð styrkjanna nemur um 39 milljónum króna. Verkefnin eru mjög fjölbreytt, flest á sviði náttúru- og umhverfisrannsókna og nokkur um nýjungar í tækni.
 
1. Nýir styrkir
 
Modem (Multi-temporal Digital Elevation Modelling and change quantification in Icelandic glacial sedimentary environments). Verkefnisstjóri: Anders Schomacker, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands
 
Meðhöndlun og endurheimt staðargróðurs á framkvæmdasvæðum. Verkefnisstjóri: Árni Bragason, Verkfræðistofan EFLA ehf.
 
Efniseiginleikar lausra jarðlaga og jarðfyllinga. Verkefnisstjóri: Bjarni Bessason, Verkfræðistofnun Háskóla Íslands.
 
Jarðhnik á Tjörnesi. Verkefnisstjóri: Bryndís Brandsdóttir, Raunvísindastofnun Háskólans
Vetrarís á Þingvallavatni. Verkefnisstjóri: Einar Sveinbjörnsson, Veðurvaktin ehf.
 
Nýjar leiðir til að framleiða kísil-sólarhlöð. Verkefnisstjóri: Halldór G. Svavarsson, Háskólinn í Reykjavík
 
Úttekt á hagkvæmni, kostum og göllum þess að rafvæða hluta íslenska bílaflotans. Verkefnisstjóri: Helgi Þór Ingason, Verkfræðistofnun Háskóla Íslands.
 
Áhrif afrennslis á vistkerfi háhitasvæða. Verkefnisstjóri: Jón S. Ólafsson Veiðimálastofnun.
 
M5 kort og úrkomutíðni. Verkefnisstjóri: Jónas Elíasson, Verkfræðideild H.Í.
 
Jarðskjálftasvörun tækja og búnaðar í mannvirkjum. Verkefnisstjóri: Jónas Þór Snæbjörnsson, Rannsóknamiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði
 
Heildaráhrif raf- og vetnisvæðingar á samgöngur á Íslandi. Verkefnisstjóri: María Hildur Maack, Íslensk NýOrka.
 
Áhrif virkjana í jökulám á fléttur. Verkefnisstjóri: Starri Heiðmarsson, Náttúrufræðistofnun Íslands.
 
Efniseiginleikar borholusteypublandna með hliðsjón af þrýstings- og hitastigsbreytingum.
Verkefnisstjóri: Sunna Ólafsdóttir Wallevik, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
 
Dreifing vatns á botni jökla. Verkefnisstjóri: Þröstur Þorsteinsson, Raunvísindastofnun Háskólans.
 
2. Framhaldsstyrkir
 
SkógVatn - áhrif skógræktar og landgræðslu á vatnsgæði, vatnshag og vatnalíf. Verkefnisstjóri: Bjarni Diðrik Sigurðsson, Landbúnaðarháskóla Íslands.
 
Eiginleikar tvífasa streymis vatns og gufu i jarðlögum. Verkefnisstjóri: Guðrún A. Sævarsdóttir, Verkfræðideild H.Í.
 
Umhverfisrannsóknir i Lagarfljóti Verkefnisstjóri: Hrund Andradóttir, Verkfræðideild H.Í.
 
Gönguhegðun urriða i Efra-Sogi og Úlfljótsvatni Verkefnisstjóri: Jóhannes Sturlaugsson, Laxfiskar ehf.
 
Gjóskufall frá Heklu og mat á áhættu fyrir vatnsaflsstöðvar og miðlunarlón . Verkefnisstjóri: Kate Taylor Smith, Jarðvísindastofnun Háskólans
 
Hönnun stíflugarða á jarðskjálftasvæðum. Verkefnisstjóri: Sigurður Erlingsson, Verkfræðideild H.Í.
 
Örlög brennisteinsvetnis (H2S) frá jarðvarmavirkjunum. Verkefnisstjóri: Sigurður Magnús Garðarsson, Verkfræðideild H.Í.
 
Rætur háhitasvæða: Lekt bergs, ummyndun og kvikugös - jarðefnafræðileg athugun. Verkefnisstjóri: Stefán Arnórsson, Jarðvísindastofnun Háskólans
 
Yfirborðskortlagning íslenskra jökla á heimskautaárunum 2008 og 2009 Verkefnisstjóri: Tómas Jóhannesson, Veðurstofu Íslands.
 
Osmósuvirkjanir á íslenskum vatnsföllum. Verkefnisstjóri: Þorsteinn I. Sigfússon, Nýsköpunarmiðstöð Íslands
 
 

Fréttasafn Prenta