Frétt

59,5 milljónum úthlutað úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar

12. febrúar 2015

Áttunda úthlutun Orkurannsóknarjóðs Landsvirkjunar fór fram við hátíðlega athöfn á Hótel Natura, miðvikudaginn 11. febrúar. Úthlutað var 59,5 milljónum til margvíslegra verkefna á sviði umhverfis- og orkumála.

Fjölmargar góðar umsóknir bárust en úthlutað var úr tveimur flokkum; A-flokki, sem eru styrkir til nemenda í meistara- eða doktorsnámi og B-flokki rannsóknarverkefna.

Í flokki A voru að þessu sinni veittir styrkir að heildarupphæð 13,8 milljónir króna. Veittir voru 7 styrkir til doktorsnema að upphæð 1.200 þúsund króna hver og 9 styrkir til meistaranema, að upphæð 600 þúsund krónur hver. Af veittum styrkjum í A-flokki voru 5 styrkir til orkumála en 11 til rannsókna á náttúru og umhverfi.

Í flokki B til rannsóknarverkefna voru veittir styrkir að heildarupphæð 45,7 milljónir króna til 18 verkefna. Verkefnin eru mjög fjölbreytt og voru 8 styrkir til orkumála og 10 til rannsókna á náttúru og umhverfi.

Um Orkurannsóknarsjóð

Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála og veita styrki til námsmanna, rannsóknarverkefna á vegum háskóla, stofnanna, fyrirtækja og einstaklinga. Sjóðurinn miðar að því að gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri, og tryggja að þær rannsóknir sem sjóðurinn styrkir samræmist umhverfisstefnu Landsvirkjunar.

Stjórnarformaður sjóðsins er Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur og fyrrum háskólarektor, en stjórn Orkurannsóknarsjóðs skipa fjórir fulltrúar háskólasamfélagsins og tveir fulltrúar Landsvirkjunar. Úthlutað er úr sjóðnum árlega en frá stofnun hans árið 2008 hefur sjóðurinn veitt styrki að heildarupphæð 438 milljónum króna.

Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér: 
http://www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/orkurannsoknasjodur

Fréttasafn Prenta