Frétt

60 milljónum úthlutað úr Orkurannsóknasjóði

15. febrúar 2017

60 milljónum króna var í dag úthlutað úr Orkurannsóknasjóði Landsvirkjunar. Um var að ræða tíundu úthlutun sjóðsins til margvíslegra verkefna á sviði umhverfis- og orkumála.

Á þeim 10 árum sem sjóðurinn hefur starfað hefur hann veitt 57 styrki til doktorsnáms og 94 styrki til meistaranáms. Styrkina hafa hlotið 66 konur og 85 karlar. Sjóðurinn hefur einnig veitt 202 styrki til rannsóknarverkefna. Viðfangsefnin í námi og rannsóknarverkefnum skiptast nokkuð að jöfnu milli orku- og virkjunarmála og náttúru- og umhverfismála. Í heild hafa styrkir sjóðsins á þessum árum numið 554 milljónum króna. Þar af eru styrkir til námsmanna 115 milljónir króna og styrkir til rannsóknarverkefna 439 milljónir króna.

Úthlutað var úr tveimur flokkum - A flokki, sem eru styrkir til efnilegra nemenda sem áforma eða hafa hafið meistara- eða doktorsnám á sviði umhverfis- eða orkumála – og B flokki, sem eru skilgreind rannsóknarverkefni á sviði umhverfis- og orkumála, þar með taldar rannsóknir til notkunar vistvænna orkugjafa í samgöngum.

Í flokki A voru að þessu sinni veittir styrkir að heildarupphæð 10,2 milljónir króna. Veittir voru 6 styrkir til doktorsnema að upphæð 1.200 þúsund króna hver og 5 styrkir til meistaranema, að upphæð 600 þúsund krónur hver. Af veittum styrkjum í A flokki voru 7 til virkjunarmála en 4 til rannsókna á náttúru og umhverfi.

Í flokki B til rannsóknarverkefna voru veittir styrkir að heildarupphæð 49,5 milljónir króna, til 21 verkefnis. Verkefnin eru mjög fjölbreytt, flest á sviði náttúru- og umhverfisrannsókna og nokkur á sviði tækninýjunga.

„Þegar sjóðurinn hóf störf fyrir 10 árum olli það áhyggjum hve fáir lögðu stund á framhaldsnám og rannsóknir við háskóla á sviði orku- og virkjunarmála og rannsóknum á náttúru og umhverfi sem þeim tengjast. Þar hefur orðið jákvæð breyting og það er verulegt ánægjuefni hve margir af öflugum háskólanemum leggja nú stund á þessi fræði.“
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar

Um Orkurannsóknasjóð

Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir á sviði umhverfis- og orkumála og veita styrki til námsmanna, rannsóknarverkefna á vegum háskóla, stofnanna, fyrirtækja og einstaklinga. Sjóðurinn miðar að því að gera fjárframlög Landsvirkjunar til rannsókna skilvirkari og sýnilegri, og tryggja að þær rannsóknir sem sjóðurinn styrkir samræmist umhverfisstefnu Landsvirkjunar.
Stjórnarformaður sjóðsins er Sveinbjörn Björnsson, eðlisfræðingur og fyrrum háskólarektor, en stjórn Orkurannsóknasjóðs skipa fjórir fulltrúar háskólasamfélagsins og tveir fulltrúar Landsvirkjunar. Úthlutað er úr sjóðnum árlega en frá stofnun hans árið 2008 hefur sjóðurinn veitt styrki að heildarupphæð 554 milljónum króna.


Nánari upplýsingar um sjóðinn má finna hér

Ljósmynd af hópnum

Fréttasafn Prenta