Frétt

620 tonna stálpípufarmur fluttur um vegi landsins

3. mars 2017

Á dögunum hófst flutningur á 620 tonna farmi með stálrörum með flutningabílum frá Þorlákshöfn til Búrfells, þar sem unnið er að stækkun Búrfellsvirkjunar.

Einingum fallpípunnar var skipað upp í Þorlákshöfn, eftir að hafa komið til Íslands frá Hamborg með flutningsskipinu Filia Ariea. Ferðin tók um 7 daga, en áður var flutningur frá framleiðendum til Hamborgar á undanförnum vikum. Einingarnar verða nú fluttar frá Þorlákshöfn að Búrfelli. Áætlað er að sá flutningur fari fram á fimm nóttum, þar sem um er að ræða alls 23 einingar.

Einingarnar eru stálrör í fallpípu sem flytur vatn frá inntakslóni niður í vatnsvél. Hringlaga einingarnar eru 22 talsins, mesta þvermál um 5,5 m og flestar um 6 m langar. Þar að auki er breytistykki sem er um 7,5 m langt og er mesta þvermál þess um 5,7 m. Heildarþyngd farmsins er um 620 tonn.

Þýska fyrirtækið DSD NOELL GmbH er hönnuður eininganna. Smíði hringlaga eininganna var í höndum fyrirtækisins SAM og fyrirtækið Confredo sá um smíði á breytistykki.

Stálrörið á að vera uppsett og steypt inn í lok júlí.

Fyrst um sinn verður einingum komið fyrir á lagersvæði framkvæmdasvæðis við Búrfell en vinna við uppsetningu mun síðan hefjast á næstu dögum. Áætlað er að öll stálpípan verði komin á sinn stað og steypt inn í lok júlí og þá verður hún sandblásin og máluð að innan, gera má ráð fyrir að það verk taki um tvo mánuði.

Hér má nálgast nánari upplýsingar um stækkun Búrfellsvirkjunar.

Fréttasafn Prenta