Á dögunum hófst flutningur á 620 tonna farmi með stálrörum með flutningabílum frá Þorlákshöfn til Búrfells, þar sem unnið er að stækkun Búrfellsvirkjunar.
Einingum fallpípunnar var skipað upp í Þorlákshöfn, eftir að hafa komið til Íslands frá Hamborg með flutningsskipinu Filia Ariea. Ferðin tók um 7 daga, en áður var flutningur frá framleiðendum til Hamborgar á undanförnum vikum. Einingarnar verða nú fluttar frá Þorlákshöfn að Búrfelli. Áætlað er að sá flutningur fari fram á fimm nóttum, þar sem um er að ræða alls 23 einingar.
Einingarnar eru stálrör í fallpípu sem flytur vatn frá inntakslóni niður í vatnsvél. Hringlaga einingarnar eru 22 talsins, mesta þvermál um 5,5 m og flestar um 6 m langar. Þar að auki er breytistykki sem er um 7,5 m langt og er mesta þvermál þess um 5,7 m. Heildarþyngd farmsins er um 620 tonn.
Þýska fyrirtækið DSD NOELL GmbH er hönnuður eininganna. Smíði hringlaga eininganna var í höndum fyrirtækisins SAM og fyrirtækið Confredo sá um smíði á breytistykki.
Stálrörið á að vera uppsett og steypt inn í lok júlí.
Fyrst um sinn verður einingum komið fyrir á lagersvæði framkvæmdasvæðis við Búrfell en vinna við uppsetningu mun síðan hefjast á næstu dögum. Áætlað er að öll stálpípan verði komin á sinn stað og steypt inn í lok júlí og þá verður hún sandblásin og máluð að innan, gera má ráð fyrir að það verk taki um tvo mánuði.
Hér má nálgast nánari upplýsingar um stækkun Búrfellsvirkjunar.