Frétt

Kárahnjúkavirkjun 7% fram úr kostnaðaráætlun

3. júní 2009

Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur, veltir vöngum yfir kostnaði Kárahnjúkavirkjunar í Fréttablaðinu 25. og 26. maí 2009.

Fyrri daginn telur hann kostnaðinn hafa farið 80% fram úr áætlun í dollurum talið og seinni daginn að kostnaður hafi farið 40-45% fram úr áætlun.

Landsvirkjun stendur við fyrri yfirlýsingar sem fram komu upphaflega í ársbyrjun 2008 að Kárahnjúkavirkjun fór um 7% fram úr upphaflegri kostnaðaráætlun. Sú niðurstaða kom fram í endurskoðuðu arðsemismati vegna virkjunarinnar sem finna má á vef Landsvirkjunar. Sú endurskoðun var yfirfarin af Capacent, óháðum aðila, sem telur arðsemismatið vel unnið og í samræmi við viðurkennd vinnubrögð. Það gefi raunsæa mynd af væntri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar.

Forsenda endurskoðaða arðsemismatsins um stofnkostnað upp á rúmlega 130 milljarða byggist á því að fjármagnskostnaður á framkvæmdatíma er meðtalinn og reiknað er með verðlagsbreytingum frá 2002 þegar upphaflega kostnaðaráætlunin var gerð. Hækkun áætlunarinnar í samræmi við verðlag er eðlileg þótt Sigurður fetti fingur. Stærsti hluti kostnaðar féll til samkvæmt verksamningum sem tóku yfir löng tímabil og í samningum er áskilið að greiðslur reiknist upp í samræmi við verðlagsbreytingar og kjarasamninga.

Þótt álverð sé lágt nú um stundir og hafi verið hátt á sl. ári þá ræðst arðsemi orkusölu frá Kárahnjúkavirkjun ekki af stöðunni nú eða þá, heldur af verðinu yfir 40 ára tímabil. Ekki er ástæða til að ætla annað en að arðsemi virkjunarinnar standist upphaflegar væntingar.

Tengt efni:
Endurskoðað arðsemismat Capacent >>

Fréttasafn Prenta