Frétt

81% landsmanna hlynntir uppbyggingu vindorku á Íslandi

28. ágúst 2013
Undirritun samnings við Mannvit og Eflu um frekari rannsóknir á möguleikum vindorku

Samkvæmt nýlegri könnun Capacent Gallup er mikill meirihluti landsmanna hlynntur því að reisa vindmyllur á Íslandi. Aðeins tæplega 7% segjast andvíg. Rekstur rannsóknarvindmyllanna tveggja, sem reistar voru í desember 2012, á Hafinu hefur gengið vel og ljóst er að miklir möguleikar eru á raforkuvinnslu úr vindorku hér á landi. Landsvirkjun hyggst halda rannsóknum sínum áfram en vonir standa til að vindorka geti orðið þriðja stoðin í raforkukerfi fyrirtækisins.

Næstu skref eru að meta hvort Hafið og nágrenni þess  sé raunhæfur og hagkvæmur staður fyrir uppsetningu vindlunda. Rannsaka þarf orkugetu svæðisins og gera ólíkar tillögur að vindlundum, þar sem horft verði til kostnaðar við uppbyggingu og rekstur auk samfélagslegra- og umhverfislegra þátta.

Skrifað var undir tvo samninga í dag við verkfræðistofurnar Mannvit og Eflu um ráðgjafaþjónustu vegna mögulegrar uppbyggingar vindlunda á Hafinu.

Stuðningur við frekari vinnslu rafmagns með vindorku og miklir möguleikar fyrir hendi

Samkvæmt nýlegri könnun Capacent Gallup er mikill meirihluti landsmanna hlynntur því að reisa vindmyllur á Íslandi, eða um 81%. Stuðningurinn mælist mjög sterkur því um helmingur aðspurðra segist annað hvort mjög eða alfarið hlynntur. Aðeins tæplega 7% segjast andvíg.

capacent_konnun

 

Áhuginn á vindmylluverkefninu hefur verið mikill en sökum hans var ákveðið að taka á móti gestum við vindmyllurnar sex laugardaga yfir hásumartímann milli kl. 14-17. Þar gafst gestum kostur á að skoða inn í turninn og horfa upp í stöðvarhúsið. Yfir 1.800 áhugasamir einstaklingar heimsóttu vindmyllurnar á tímabilinu, kynntu sér verkefnið og spjölluðu við starfsmenn.

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar:

„Kostnaður við vindorku fer lækkandi en eiginleikar vindorkunnar eru þó vissulega aðrir sé borið saman við vatnsafl og jarðvarma. Vatnsafl er öruggasti kosturinn og vinnslan er sveigjanleg. Jarðvarmavinnsla er stöðug og býður upp á mögulega fjölnýtingu orkunnar. Vindorka er þó áhugaverður þriðji kostur fyrir Landsvirkjun þar sem við höfum möguleikann á að nýta sveigjanleika vatnsorkunnar til að jafna þær sveiflur sem fylgja vindorkuvinnslu.“

Á heimsvísu er þróunin hvergi örari en í uppbyggingu vindorku, þar sem gríðarlegar framfarir hafa orðið á stuttum tíma en í árslok 2012 komu yfir 3% af allri raforku heimsins frá vindmyllum. Á sama tíma hefur bæði fjárfestingar- og rekstrarkostnaður lækkað mikið og er áframhaldandi verðlækkunum spáð. Alþjóðlegu vindorkusamtökin (WWEA) spá því að uppsett afl frá vindmyllum muni tvöfaldast í heiminum fyrir lok árs 2016 og að innan átta ára gæti uppsett vindafl orðið um ein milljón MW sem er það sama og uppsett afl frá vatnsorku er í dag.

Mögulegir vindlundir á Hafinu rannsakaðir

Rekstur rannsóknarvindmyllanna tveggja, sem reistar voru í desember 2012, á Hafinu hefur gengið vel og ljóst er að miklir möguleikar eru á raforkuvinnslu úr vindorku hér á landi. Landsvirkjun  hefur því ákveðið að meta vindorkugetu svæðisins af meiri nákvæmni með ítarlegri vindmælingum og hermunum ásamt því að leggja mat á, og bera saman, ólíkar tillögur varðandi stærð og staðsetningu mögulegra vindlunda.

Ekki hefur áður verið skoðaður ítarlega sá möguleiki á að setja upp vindlundi á Íslandi og felst því talsverð frumkvöðlavinna í verkefninu s.s. að vinna mat á umhverfisáhrifum og greina þörfina á skipulagsbreytingum, meta mögulegan virðisauka vindlundar fyrir raforkukerfið í heild og tækifærin sem felast í samspili vind- og vatnsorku. Rýna þarf lagaumgjörð og reglur, bæði þær sem eru til staðar og vinna að mótun reglna þar sem þeirra nýtur ekki við.

Markmið verkefnisins er að tryggja, að Landsvirkjun geti stuðst við ítarlegar greiningar og gögn við ákvarðanir um uppbyggingu vindorku sem þriðju stoðarinnar í raforkukerfinu.  

Samið við verkfræðistofurnar Eflu og Mannvit um ráðgjafaþjónustu

Verkefnið tekur til ráðgjafarþjónustu vegna undirbúnings að uppbyggingu á vindlundum á Hafinu. Verkefninu er deilt í tvennt þ.e. ráðgjafaþjónusta vegna verkhönnunar annars vegar og ráðgjafaþjónusta vegna mats á umhverfisáhrifum hins vegar.

Verkhönnun kom í hlut verkfræðistofunnar Eflu sem eru í samstarfi við sænska ráðgjafafyrirtækið Pöyry SwedPower AB og Belging reiknistofu í veðurfræði.

Verkfræðistofan Mannvit mun vinna að mati á umhverfisáhrifum. Mannvit er í samstarfi við norska ráðgjafafyrirtækið Ramböll AS og Landslag ehf.

Miðað er við að verkefnið sé unnið á árunum 2013 - 2015.

Aðstæður á Íslandi óvenju hagstæðar

Aðstæður til virkjunar vindorku eru óvenju hagstæðar á Íslandi. Vindrannsóknir sýna mikinn vindstyrk tiltölulega lágt yfir sjávarmáli sem gerir virkjun hagkvæmari þar sem möstur geta verið lægri en ella og kostnaður þar af leiðandi minni. Uppsetning tekur stuttan tíma og auðvelt er að byggja vindlundi í áföngum, eftir því sem þurfa þykir og markaðurinn krefst.

Umhverfisáhrif af vindmyllum eru lítil og fullkomlega afturkræf. Sjónræn áhrif eru einhver og því mikilvægt að vanda staðarval. Vindstyrkur er mestur að vetri þegar lítið vatn rennur í miðlunarlón Landsvirkjunar og möguleg samlegðaráhrif við vatnsorkuna því mikil.

Með frekari rannsóknum og undirbúningi er stuðlað að markvissum vinnubrögðum til að tryggja að ákvarðanir í framtíðinni verði teknar á traustum forsendum.

Rekstur það sem af er ári

Það sem af er að ári hefur rekstur vindmyllana gengið vel og engar óeðlilegar rekstrartruflanir orðið. Vindur á hafinu hefur ekki farið langt frá mynstri undangenginna ára og verið nokkuð nærri meðallagi síðan vindmyllurnar risu.

Raforkuvinnsla myllanna hefur einnig verið samkvæmt áætlunum en alls hafa verið unnar um 3150 MWst frá upphafi mælinga. Nægir sú orka til þess að koma u.þ.b. 8 milljón manns upp í Hallgrímskirkjuturn eða hlaða u.þ.b. hálfan milljarð farsíma.

Hægt er að fylgjast með raforkuvinnslu vindmyllanna tveggja í rauntíma á heimasíðu Landsvirkjunar. Sjá http://www.landsvirkjun.is/Rannsoknirogthroun/Throunarverkefni/Vindmyllur/Rauntimaupplysingar

Fréttasafn Prenta