Frétt

Afhending á raforku mögulega takmörkuð vegna veðurfars

2. september 2015

Einangrað raforkukerfi

Rafmagn á Íslandi er unnið í lokuðu kerfi. Um 71% af allri raforkuvinnslu er með vatnsafli, sem er mjög háð afrennsli af þeim vatnasviðum sem virkjanirnar nýta.

Innrennsli í miðlunarlón er háð veðurfari. Það er því breytilegt, bæði á milli árstíða og einnig á milli ára. Miðlunarlón eru nýtt til að jafna sveiflur innan ársins, en eru að jafnaði ekki nægilega stór til að jafna sveiflur á milli ára.

Innrennsli síðustu 12 ára hefur verið hagstætt fyrir orkuvinnslu Landsvirkjunar, rúmur helmingur yfir miðgildi langtímaraða, tæpur helmingur undir og einungis eitt  lágrennslisár. Allt bendir til þess að núverandi ár verði einnig lágrennslisár.

Gagnkvæmur sveigjanleiki í samningum

Vegna þessa breytileika í náttúrunni er stór hluti raforkusamninga Landsvirkjunar þannig upp byggður að ákveðinn sveigjanleiki og heimild er til staðar til að minnka afhendingu á raforku í slökum vatnsárum ef nauðsyn krefur. Í samningum við stórnotendur er kveðið á um að hægt sé að minnka orkuframboð til viðskiptavina um allt að 10%. Landsvirkjun er því heimilt að minnka afhendingu á orku til stóriðjunnar sem því nemur. Á árunum 2009-2014 hefur Landsvirkjun í eitt sinn nýtt þessa heimild og minnkað orku um 2%

Sveigjanleikinn er í báðar áttir. Almennt hafa stóriðjufyrirtækin 85% kaupskyldu, en við ákveðnar aðstæður í raforkukerfi getur ótekin orka náð 13%. Þennan sveigjanleika hafa fyrirtækin nýtt sér undanfarin ár og á árinum 2009 til 2014 var hlutfallið um 2-5%. Almennt er búist við því að það sé á bilinu 1-2%.

Sveigjanleiki skilar sér í lægra orkuverði

Ef engir slíkir sveigjanlegir samningar væru fyrir hendi þyrfti að hanna kerfið með þeim hætti að afhending orku væri tryggð í öllum árum, einnig vatnsminnstu árunum jafnvel þótt þau séu fátíð. Slíkt kerfi yrði talsvert dýrara á hverja orkueiningu og í flestum árum myndi mikið vatn renna framhjá virkjunum ónotað.  Kaupendur orkunnar fá þannig lægra orkuverð í staðinn fyrir óhagræðið af því að hafa ákveðinn hluta orkunnar sveigjanlegan. Til að gera þessa orku að óskerðanlegri forgangsorku þyrfti Landsvirkjun að fjárfesta fyrir hátt í  80 milljarða króna, sem myndi eðli málsins samkvæmt leiða til hærra raforkuverðs en ella.

Óhagstæð tíð í vor og sumar

Á undangengnum vetri voru sunnanáttir ríkjandi og safnaðist mikill snjór fyrir á hálendinu sunnan heiða en mun minni norðan og austan. Kröftugar vorleysingar komu þó aldrei fram, en maímánuður var sá kaldasti fyrir landið í heild síðan 1982. Ekki tók betra við í júní og júlí, en kalt var á hálendinu og á jöklum landsins.

Kuldatíðin nú í sumar, sem er orðin landsmönnum nokkuð eftirminnileg, hefur haft áhrif á vatnsbúskap Landsvirkjunar. Júlí reyndist mjög kaldur með lítilli snjó- og jökulbráð, sérstaklega á Austurlandi, þar sem leita þarf aftur til ársins 1993 til að finna jafn kaldan júlímánuð. Þrátt fyrir að rennsli hafi aukist í ágústmánuði er vatnsstaða ennþá lág og mun innrennsli í september skera úr um hver lokastaðan verður og hvort draga þurfi úr afhendingu á ótryggri raforku.

Í dag er staðan sú að fyrir landið í heild telst rennsli ársins vera verulega lítið, sérstaklega á  Austurlandi. Síðustu vikur hefur innrennsli til Hálslóns þó verið að aukast og er nú nærri meðallagi miðað við árstíma.

Veðrátta septembermánaðar mun skipta miklu máli um það hver vatnsstaðan verður þegar dregur úr  innrennsli í lónin og niðurdráttur hefst. Áfram er þó talið ólíklegt að Hálslón nái að fyllast. Eins og landsmenn þekkja er veðurfar á Íslandi mjög breytilegt og langtíma veðurspár óvissar. Endanleg staða ætti þó að vera orðin nokkuð skýr eftir miðjan septembermánuð.

Úrræði Landsvirkjunar

Landsvirkjun getur gripið til eftirfarandi úrræða í þurrum árum:

  • Takmarkað framboð á skammtímamarkaði innanlands.
  • Dregið úr afhendingu á orku í samræmi við samninga við viðskiptavini.
  • Gripið til endurkaupa á orku frá viðskiptavinum eða keypt af öðrum orkuvinnsluaðilum.
  • Við mjög sérstakar aðstæður eru heimildir til að grípa til skerðingar á forgangsorku.

Útfærsla löguð að þörfum viðskiptavina eins og mögulegt er

Landsvirkjun hefur tilkynnt stórnotendum að mögulega verði dregið úr afhendingu á raforku, ef ástand í vatnsbúskapnum batnar ekki á næstu vikum. Stóriðjufyrirtækin hafa, samkvæmt samningum, einn mánuð til þess að laga sig að breyttum aðstæðum. Sérfræðingar Landsvirkjunar fylgjast grannt með þróun í vatnsbúskapnum og mun fyrirtækið bregðast við eftir atvikum. Reynt verður að laga útfærslu aðgerðanna að þörfum viðskiptavina eins og mögulegt er.

Enn ríkir óvissa um takmörkun orkuafhendingar, en miðað við meðalhorfur um 80% fyllingu lóna hinn 1. október og meðalrennsli í vetur og fram á vor, má reikna með að orkusala Landsvirkjunar geti dregist saman um 3,5% í vetur. Sem fyrr segir mun innrennsli á næstu mánuðum skera úr um að hve miklu leyti Landsvirkjun mun þurfa að draga úr afhendingu.

Fréttasafn Prenta