Frétt

Framtíðaráhrif loftslagsbreytinga - Tími til aðgerða

22. maí 2015

Landsvirkjun hélt opinn fund um loftslagsbreytingar undir yfirskriftinni „Framtíðaráhrif loftslagsbreytinga - Tími til aðgerða” í dag í Hörpu. Um 150 manns sóttu fundinn og hlýddu á hvernig hægt er að vinna gegn hnattrænum loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra. Framsögumenn voru sammála að ábyrgð fyrirtækja og stjórnvalda um heim allan væri mikil, ekki síst í ljósi þess að hlýnun jarðar hefur aldrei verið meiri, þörf væri á aðgerðum núna.

Framsögumenn fundarins voru Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur hjá Veðurstofu Íslands og Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður stefnumörkunar hjá skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Magnús Halldórsson, blaðamaður hjá Kjarnanum, stýrði fundi og pallborðsumræðum í lok fundar. Þátttakendur í umræðunum eru Halldór Björnsson, Halldór Þorgeirsson, Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, Hólmfríður Sigurðardóttir, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, fjallaði í erindi sínu um áherslur íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum. Umhverfisrráðuneytið sér um framkvæmd Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna og um mótun aðgerðaráætlunar í loftslagsmálum fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Hún sagði að árið 2015 væri tímamótaár í loftslagsmálum vegna alþjóðlegrar stefnumörkunar á þessu sviði og niðurstaða þeirrar vinnu réðist á fundi aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna í París í lok árs. Sigrún sagði að allar þjóðir yrðu að leggja sitt af mörkum og að við Íslendingar muni ekki skorast undan þeirri ábyrgð þó að við losum um 0.01% af heildarlosun á heimsvísu. Hún talaði um að Ísland hafi verið ábyrgt í loftslagsmálum en sagði að við gætum gert betur, meðal annars með því að hætta að sóa raforku og draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Hún sagði enn fremur að stjórnvöld ynnu að stefnumörkun sem sex ráðuneyti tækju þátt í og að vinnunefndin myndi skila niðurstöðum fljótlega.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, ræddi um stefnu fyrirtækisins í loftslagsmálum sem felst fyrst og fremst í því að kolefnisjafna starfsemi fyrirtækisins. Það sé gert með því að nýta betur orkuauðlindirnar, draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda og að kolefnisbinda samhliða. Landsvirkjun vaktar umhverfisþætti og vinnur markvisst að úrbótum með sértækum verkefnum sem sagt er frá nánar í nýútkominni umhverfisskýrslu. Hörður sagði að Landsvirkjun vilji setja sér strangari kröfur en lagalegar kröfur á sviði umhverfismála segja til um. Hann sagði að Landsvirkjun hyggðist bráðlega kynna aðgerðaráætlun fyrirtækisins í þeim efnum. Hann nefndi að orkusparnaður væri mikilvægasta einstaka verkefnið og að Íslendingar eigi langt í land með að draga úr orkunotkun.

Halldór Björnsson, veður- og haffræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði á fundinum að hlýnun jarðar væri óumdeilanleg og benda margar athuganir til breytinga frá því um miðbik síðustu aldar sem eru fordæmalausar þegar litið er til síðustu áratuga eða árþúsunda. Lofthjúpurinn og heimshöfin hafa hlýnað, dregið hefur úr magni og útbreiðslu snævar og íss auk þess sem sjávarborð hefur hækkað og styrkur gróðurhúsalofttegunda aukist. Halldór talaði um að allir jöklar á Íslandi væru að hörfa og þynnast. Hann sagði að bráðnun jökulhvela setji fingrafar á sjárvarstöðubreytingar og stuðli að yfirborðshækkun sjávar fjarri jökulhvelum en þó minna nær þeim. Halldór talaði um að það sem myndi gerast næst myndi ráðast af því hversu mikil losunin er á gróðurhúsalofttegundum.

Halldór Þorgeirsson, framkvæmdastjóri hjá skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sagði miklar vonir bundnar við að Loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna í París í desember muni marka þáttaskil. Aðildarríkin munu gera grein fyrir framlögum sínum til lausnar vandans tímanlega fyrir fundinn og hafa 38 ríki gert svo nú þegar. Hann sagði að á fundinum yrði einnig gengið frá nýjum alþjóðasamningi undir loftslagssamningnum. Þingið mun halda áfram að hvetja til samstarfs sveitarsstjórna, landshlutastjórna og atvinnulífsins um lausn vandans.

Magnús Halldórsson fundarstjóri stýrði pallborðsumræðum að erindum loknum. Þáttakendur í umræðunum voru Halldór Björnsson, Halldór Þorgeirsson, Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, Rannveig Rist, forstjóri Rio Tinto Alcan, Hólmfríður Sigurðsdóttur, umhverfisstjóri Orkuveitu Reykjavíkur og Hugi Ólafsson, skrifstofustjóra í umhverfis- og auðlindaráðuneyti. Þátttakendur voru sammála um að staðan væri alvarleg og það að finna leiðir fyrir fyrirtæki og stjórnvöld að sporna markvisst gegn frekari loftslagsbreytingum væri eitt mikilvægasta málefni samtímans. Loftslagsbreytingar væri ein helsta áskorun alþjóðasamfélagsins í dag.

  • Hnattræn hlýnun er óumdeilanleg 
  • Hitastig mun hækka um 2 til 4 gráður á Celsíus á næstu 100 árum
  • Loftslagsbreytingar hafa áhrif á náttúrulega ferla

Hnattræn hlýnun af mannavöldum ræðst af losun gróðurhúsalofttegunda. Afleiðingarnar eru grafalvarlegar: Gróðurbelti færast til og hækkandi yfirborð sjávar eykur flóðahættu. Lífsskilyrði í sjó eru að breytast vegna hækkandi sýrustigs og seltu. Á síðustu árum hafa átt sér stað miklar framfarir á sviðið vísinda hvað varðar skilning á áhrifaþáttum loftslagsbreytinga á jörðinni. Þrátt fyrir þetta þá stendur mannkynið frammi fyrir því að hitastig muni að óbreyttu hækka um 2 til 4 gráður á Celsíus á næstu 100 árum og það á sér ekki hliðstæðu í loftslagssögu jarðar. Samanteknar hitamælingar á landi og á hafsvæðum sýna að frá 1880 til 2012 hlýnaði um 0,85°C við yfirborð jarðar. Á því tímabili sem fyrirliggjandi gögn eru heillegust (1901 – 2012) hlýnaði víðast hvar á jörðinni. Þrátt fyrir augljósa langtímahlýnun getur meðalhitinn sveiflast verulega milli áratuga.

Loftslagsbreytingar hafa áhrif á náttúrulega ferla á jörðinni og því ber öllum skylda að bregðast gegn þessum breytingum. Frá og með árinu 2012 hafa loftslagsmál hérlendis verið samræmd að tilskipun Evrópu sambandsins (ESB), sbr. lög nr. 70 (2012). Tilskipunin byggir að miklu leyti á markaðskerfi með framseljanlegar koldíoxíðheimildir (ETS – European trading system). Í janúar á þessu ári  kynnti ESB rammaáætlun um loftslags- og orkumál til ársins 2030 en hún felur í sér að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40% frá því sem losunin var árið 1990. Jafnframt er tilgreint að 27% af orkunotkun skulu koma frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Framtíðarsýnin er að orkukerfi ESB verði sjálfbærara, öruggara og samkepnishæfara. Miðað við áætlunina þá skal ESB ná markmiðum sínum í minnkun á útblæstri og orkunýtni eftir árið 2020. 

Fréttasafn Prenta