Frétt

Góð staða í vatnsbúskap Landsvirkjunar

10. október 2014

Eftir afar gott tíðarfar í september er staðan í vatnsbúskap Landsvirkjunar góð. Hálslón og Blöndulón hafa verið full allan septembermánuð og vatn runnið þar á yfirfalli. Vatnsborð í Þórisvatni var í morgun 578,30 metra yfir sjávarmáli og vantaði aðeins um 70 cm á að það væri fullt.

Hjá Landsvirkjun hefst svokallað vatnsár þann 1. október þegar miðlunarlón eru að jafnaði full eða í hæstu stöðu, og lýkur ári síðar þann 30. september.

Hver vatnsfjórðungur hefur sín sérstöku einkenni:

  • Fyrsti vatnsfjórðungur (október-desember), einkennist af haustrigningum þegar vel árar
  • Annar vatnsfjórðungur (janúar-mars), af vetrarkuldum og litlu rennsli fyrir utan eitt og eitt vætuskot
  • Þriðji vatnsfjórðungur (apríl-júní), af snjóbráð og vorflóðum
  • Fjórði vatnsfjórðungur af jökulbráðnun (júlí-september)

Í heildina raðar vatnsárið 2013-2014 sér í hóp lélegra vatnsára á öllum svæðum nema á austurlandi, en skýringin er sú að rigningar í sumar voru bundnar við láglendið.

Fréttasafn Prenta