Frétt

Á traustum grunni - efnismikill ársfundur 2018

15. maí 2018

Ársfundur Landsvirkjunar 2018 var haldinn undir yfirskriftinni „Á traustum grunni“ á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Til máls á fundinum tóku Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra og Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður Landsvirkjunar, auk þess sem Hörður Arnarson forstjóri kynnti afkomu og starfsemi ársins, Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður á starfsmannasviði kynnti jafnréttisátak innan fyrirtækisins, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri fjallaði um horfur á raforkumarkaði, og Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs, fjallaði um aukna raforkuþörf í tengslum við samfélagsbreytingar nútíðar og framtíðar. Fundarstjóri var Magnús Þór Gylfason, yfirmaður samskiptasviðs.

Stofnun Landsvirkjunar gæfuspor

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tók fyrstur frummælenda til máls og byrjaði á að minnast þess að á þessu ári eru 100 ár liðin frá því að Ísland fékk fullveldi, en þáttur í sjálfstæði þjóðar væri efnahagslegt sjálfstæði og þar með nýting auðlinda og yfirráð yfir þeim. Bjarni sagði að stofnun Landsvirkjunar hefði haft mikil áhrif á grundvallarstoðir íslensks efnahagslífs og verið mikið gæfuspor fyrir þjóðina, enda hafi hún gert atvinnulífi kleift að auka afköst og framleiðni.

Bjarni greindi frá stöðu mála er varða þjóðarsjóð, sem hann ljáði fyrst máls á á ársfundi Landsvirkjunar fyrir þremur árum. Sagðist hann vonast til þess að hugmyndin yrði að raunveruleika á þessu afmælisári fullveldisins. Þar skipti meginmáli góð fjárhagsstaða Landsvirkjunar, en líkur stæðu til þess að á næstu árum gætu umtalsverðar arðgreiðslur runnið til eiganda fyrirtækisins.

Þá rakti Bjarni stöðu mála í eignarhaldi fyrirtækja á Íslandi, en hann sagði að sér væri til efs að áður hefði sést jafn stórt hlutfall atvinnustarfsemi í landinu í opinberri eigu, annað hvort beint eða í óbeinni eigu almennings í gegnum lífeyrissjóðina. Hann varpaði fram þeirri spurningu hvort þetta fyrirkomulag gæti talist óheppilegt, út frá því sjónarmiði að tryggja samkeppni, neytendum í vil, og hvort hið sama gæti átt við um heildsölumarkað með raforku og hvort ekki þyrfti að koma á aukinni samkeppni á honum. Þar væri þó vandratað einstigi á milli þess að gera ríkar arðsemikröfur og tryggja hagsmuni almennings.

Orkuvinnsla er ekki skammtímaatvinnugrein

Jónas Þór Guðmundsson stjórnarformaður fjallaði um góða afkomu fyrirtækisins á árinu 2017 og vék svo að þeim grunni verðmætasköpunar og framfara sem lagður var með ákvörðunum og framkvæmdum Landsvirkjunar fyrr á árum. „Við blasir að framkvæmdir fortíðar lögðu hornstein að árangri dagsins í dag. Í upphafi var tekin ákvörðun um að styðja við stóriðju á Íslandi. Það var stórt framfaraspor fyrir atvinnulífið og íslenskt samfélag í heild. Fyrirtæki í orkumiklum iðnaði eru enn þann dag í dag burðarás í viðskiptavinahópi Landsvirkjunar. Lögð er áhersla á að hlúa að þeim þætti í starfseminni. Á seinni árum hafa ný viðskiptatækifæri gert fyrirtækinu kleift að breikka hóp viðskiptavina sinna með það að markmiði að auka verðmætasköpun og minnka rekstraráhættu. Rekstur Landsvirkjunar hvílir þannig á traustum grunni,“ sagði Jónas í ávarpi sínu.

Jónas sagði þá þróun vera ánægjulega, sem orðið hefði í samfélaginu, að sjónarmið náttúruverndar hlytu sífellt meiri hljómgrunn. Aukin velmegun hefði gert okkur kleift að setja náttúruna í fyrsta sæti, en Íslendingar yrðu þó að gæta þess að verða ekki andvaralausir gagnvart framtíðinni. „Orkuvinnsla er ekki skammtímaatvinnugrein og hún krefst þess að horft sé fram í tímann, til þess að koma í veg fyrir að illa fari seinna meir. Ekkert bendir til þess að þörf fyrir raforku fari minnkandi eða standi í stað í fyrirsjáanlegri framtíð, þvert á móti.“

Að lokum vék Jónas að sjálfbærni, sem er lykilhugtak í starfsemi Landsvirkjunar, en sjálfbær þróun hvílir á stoðum efnahags, samfélags og umhverfis. Rekstur Landsvirkjunar gengi vel og nú hillti undir að arðgreiðslur til eigandans gætu farið að aukast verulega. Þá hefði fyrirtækið ákveðið að leggja áherslu á þrjú markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun; um jafnrétti kynjanna, sjálfbæra orkuvinnslu og verndun jarðarinnar.

Bætt lánshæfismat mikilvægt

Hörður Arnarson forstjóri stiklaði á stóru í rekstri og starfsemi Landsvirkjunar á árinu 2017, en undirliggjandi hagnaður var í hámarki, eiginfjárhlutfall hefur aldrei verið hærra, ekkert fjarveruslys varð hjá starfsmönnum fyrirtækisins og slegið var vinnslumet í aflstöðum á árinu. Raforkusala hefur aldrei verið meiri. „Salan var mjög nálægt því hámarki sem vinnslukerfið okkar leyfir,“ sagði Hörður.

Hörður rakti tvískiptingu íslensks raforkumarkaðar; í stórnotendamarkað og heildsölumarkað. Stórnotendamarkaður væri samkeppnismarkaður og þar hefði meðalverð frá Landsvirkjun hækkað um 11% á síðasta ári. Á heildsölumarkaði hefði raforkuverð frá Landsvirkjun til smásölufyrirtækja lækkað um 2% á árinu.

Í máli hans kom fram að frá árinu 2011 hafa öll lán Landsvirkjunar verið tekin án ríkisábyrgðar. Þar hefði hjálpað hversu einkunn lánshæfisfyrirtækja hefði farið batnandi, en hún hefur hækkað um flokk á hverju ári síðan 2014 og er fyrirtækið eitt af fáum orkufyrirtækjum í heiminum sem hafa verið að fá betra lánshæfismat. Grundvöllur þessarar hækkunar hefði verið stöðugur rekstur síðustu ár, þvert á áhyggjur matsfyrirtækjanna. Áætlanir um lækkun skulda og bættan rekstur hefðu gengið eftir. „Lánshæfismat skiptir Landsvirkjun miklu máli, þar sem stærsti kostnaðarliðurinn er vaxtagreiðslur,“ sagði Hörður. Lækkun vaxtagreiðslna væri einn af lykilþáttum í bættum rekstri.

Hörður fjallaði um rekstur aflstöðva, en mikill metnaður er lagður í viðhald þeirra og rekstur, sem er grundvöllur fyrir góðri orkusölu. Slegin voru fimm vinnslumet í fyrra, m.a. hjá Sigöldustöð, sem er 40 ára gömul, og Steingrímsstöð, sem er 58 ára. Elsta stöðin, Ljósafossstöð, varð 80 ára á árinu og Blöndustöð hlaut Blue Planet sjálfbærniverðlaunin frá Alþjóðavatnsaflssamtökunum, IHA.

Þá greindi Hörður frá framkvæmdum við Þeistareykjastöð og Búrfell II, sem lýkur á árinu. Um hafi verið að ræða flókin og umfangsmikil verkefni, en þrátt fyrir það hafi tekist að ljúka þeim á áætlun og í meginatriðum í samræmi við fjárhagsáætlanir. Lögð hafi verið áhersla á að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdanna og fyrirtækið sé stolt af því hvernig til hafi tekist í því efni.

Mikil vinna við jafnréttismál

Selma Svavarsdóttir, forstöðumaður á starfsmannasviði, greindi frá mikilli vinnu sem unnin hefur við jafnréttismál innan Landsvirkjunar að undanförnu og viðamikilli greiningu á stöðu þeirra mála. „Það var einkum þrennt sem kom til í byrjun árs 2017 og varð þess valdandi að stefnubreyting varð í jafnréttismálunum,“ sagði Selma. „Í fyrsta lagi fórum við að skoða markmiðin okkar í þessum efnum í víðara samhengi. Í öðru lagi fórum við að skoða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og í þriðja lagi kom úr grasrótinni í Landsvirkjun hvatning um að gera betur í jafnréttismálum,“ sagði hún.

Að sögn Selmu voru jafnréttismálin að þróast hægt og hægar en flest annað í fyrirtækinu. Að vísu hefði launajöfnuður verið mikill og launamunur kynjanna mælst lítill, en staðan hefði samt sem áður verið sú að konur voru einungis um 30% starfsfólks og aðeins ein kona hefði verið í framkvæmdastjórn. Hlutfall kvenstjórnenda hefði ekki verið nema 26%. Þá hefði lítið verið litið til þátta eins og menningar innan fyrirtækisins.

Haldið var vel heppnað jafnréttispartí og um svipað leyti var ákveðið að hefja umfangsmikið jafnréttisverkefni í samstarfi við Capacent. Um haustið var haldinn starfsdagur, þar sem nánast allir starfsmenn mættu og skilgreindu umbótaverkefni, sem unnið var úr og í kjölfarið varð til aðgerðaáætlun jafnréttismála.

Að mati Selmu er Landsvirkjun á réttri leið; konur í framkvæmdastjórn eru nú orðnar tvær, konum í sérfræðistörfum hefur fjölgað og kona stýrir nú í fyrsta skipti byggingu nýrrar virkjunar.

Setja þarf orkuöryggi á oddinn

Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri fjallaði um áhrif aukinnar eftirspurnar á raforkumarkað. Hún sagði tvímælalaust að samfélagið kallaði á aukna raforku, m.a. væri nú aukin eftirspurn meðal stórnotenda og einnig stæði fyrir dyrum rafvæðing samgangna. Nú þyrftum við að ákveða hvernig bregðast ætti við þessari auknu eftirspurn.

Ragna rakti hvernig íslenskur raforkumarkaður væri hluti af EES og lyti að því leyti regluverki ESB, en sambandið ákvað árið 1996 að stofna til innri markaðar með raforku, til að auka samkeppni, tengingu milli landa, auka orkuöryggi og minnka miðstýringu, neytendum í vil. Ragna varpaði fram þeirri spurningu hvort við Íslendingar ættum að óttast þetta samkeppnisumhverfi.

Ragna sagði sérstöðu orkukerfisins hér felast í því að það væri einangrað og ótengt við umheiminn, auk þess sem það byggði á 100% endurnýjanlegri orkuvinnslu. „Þetta þýðir fyrir okkur að vinnslugeta kerfisins er háð náttúröflunum. Kerfið þarf að ráða við léleg vatnsár. Við höfum ekki – og viljum ekki hafa - kolaorkuver til að rétta kerfið af,“ sagði hún. Hún sagði að í ljósi þessarar sérstöðu þyrftum við að hafa borð fyrir báru, sem þýddi að það væri ákveðin sóun í kerfinu.

Ragna lýsti raforkumarkaðinum hér á landi, en hann skiptist í tvo eðlisólíka hópa endanotenda; stórnotendur og almenna notendur. Sá fyrrnefndi tryggði alla sína raforku í langtímasamningum. Almennir notendur; heimili, landbúnaður, þjónusta og hefðbundinn iðnaður – byggi við allt öðruvísi umhverfi. Þar væru ekki gerðir langtímasamningar.

Ragna sagði að í ljósi þess að eftirspurn eftir raforku færi vaxandi væri brýnt að setja orkuöryggi á oddinn. Fyrir setningu raforkulaga hefði sú skylda hvílt á Landsvirkjun að tryggja orkuöryggi heimila og fyrirtækja, en sú kvöð væri ekki lengur fyrir hendi.

Ragna sagði að í þessu ljósi væru störf starfshóps um orkustefnu fyrir Ísland afar mikilvæg. Hann þyrfti að taka afstöðu til margra álitaefna og horfa á þau í samhengi. Hún sagðist binda miklar vonir við þá vinnu sem þar væri í gangi.

Ný tækni þarf orku

Stefanía G. Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunarsviðs, hélt erindi undir yfirskriftinni „Orka í dansi framtíðarinnar“. Hún fjallaði um fimm samhliða tækniframfarir sem hefðu gríðarleg áhrif á samfélagið og þyrfti að hafa í huga þegar raforkumál væru skoðuð í stóra samhenginu.

Í fyrsta lagi nefndi hún gögn, en gríðarlegt gagnamagn verður til á hverjum degi. 90% allra stafrænna gagna voru búin til síðustu 24 mánaða. Í öðru lagi nefndi hún algóritma, sem verða sífellt betri, þegar þeir eru keyrðir á stórum gagnasöfnun. Í þriðja lagi gagnatengingar, en 5G tæknin í gagnaflutningum er 10 sinnum hraðari en 4G tæknin. Með henni er hægt að tengja mun fleiri hluti en áður og er hið svokallaða „internet of things“ þegar orðið að veruleika. Í fjórða lagi er skýjaþjónusta - fyrirtæki geta dreift vinnslu á gögnum miklu betur en áður og fært vinnsla inn í gagnaver og ský. Í fimmta og síðasta lagi nefndi hún veldisvöxt á reiknigetu, en hún hefur tvöfaldast á hverju ári síðustu fimmtán ár.

Að mati Stefaníu leikur orka lykilhlutverk í þessum dansi.  Gagnaver séu nú hluti af lífi okkar; auknar kröfur gerðar um hraða og aukið aðgengi. Hér á landi séu sérlega hentugar aðstæður fyrir rekstur gagnavera - kalt loftslag geri að verkum að þau þurfi að kæla minna og því sé orkuþörf minni en annars staðar. Stefanía segir að háhraðareiknigeta í gagnaverum eigi eftir að breyta miklu í samfélaginu og nefnir sem gæmi að í gagnaveri Advania er í gangi verkefni sem gengur út á að herma eftir því hvernig mannshjarta bregst við lyfjum.

Þegar öllu er á botninn hvolft, segir Stefanía, eru þessi „ský“ rafeindatæki. Í þeim eru kísilmálmur og ál lykilhráefni. Fyrirsjáanleg sé mikil aukning í eftirspurn eftir þessum hráefnum og til framleiðslu þeirra þurfi orku. Samkvæmt spá Alþjóðaorkumálastofnunarinnar komi 2/3 af nýrri raforku til ársins 2030 frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þetta stóra samhengi verði að hafa í huga þegar orkumál á Íslandi séu skoðuð.

Erindi Bjarna Benediktssonar.

Erindi Jónasar Þórs Guðmundssonar.

Erindi Harðar Arnarsonar.

Erindi Selmu Svavarsdóttur.

Erindi Rögnu Árnadóttur.

Erindi Stefaníu G. Halldórsdóttur.

Fréttasafn Prenta