Frétt

Aðsóknarmet í gestastofum Landsvirkjunar

8. ágúst 2014
Gestkvæmt hefur verið í vindmyllur Landsvirkjunar í sumar.

Aðsóknarmet hefur verið slegið í gestastofum Landsvirkjunar en við lok júlímánaðar höfðu um 9.500 manns sótt fyrirtækið heim.

Erlendir ferðamenn hafa sýnt mikinn áhuga á endurnýjanlegri orku en um helmingur gesta er af erlendu bergi brotinn. Opið verður áfram í öllum gestastofum Landsvirkjunar út ágúst

Vindmyllurnar vinsælar

Auk gestastofanna var boðið var upp á að skoða vindmyllurnar tvær á Hafinu, við Búrfellsstöð, alla laugardaga í júlí. Alls heimsóttu vindmyllurnar um 1.000 gestir í júlímánuði og kynntu sér rannsóknarverkefnið, virkni vindmyllanna og áætlanir á svæðinu. Íslendingar sýndu vindmyllunum sérstakan áhuga en mikill meirihluti gesta voru íslenskir.

Þetta var annað sumarið sem Landsvirkjun hefur hleypt gestum inn í vindmyllurnar. Í ár var boðið upp á þá nýbreytni að gestir gátu merkt myndir sínar af vindmyllunum í samfélagsmiðlinum Instagram með #myndmylla og tekið þannig þátt í þemaleik hjá vindmyllunum tveimur.

Opið út ágústmánuð

Við þökkum öllum okkar gestum kærlega fyrir komuna það sem af er sumri og bjóðum alla þá sem hafa áhuga velkomna í gestastofur okkar í Búrfellsstöð, Kröflustöð og Fljótsdalsstöð. Þær verða opnar til og með 30. ágúst milli 10 og 17. Nánar má kynna sér staðsetningu og opnunartíma hér.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Fréttasafn Prenta