Áfangi til nútímalegs lífs

02.05.2020Fyrirtækið

50 ár frá vígslu Búrfellsstöðvar.

Jóhannes Nordal, fyrsti stjórnarformaður Landsvirkjunar, flutti ávarp við vígslu Búrfellsstöðvar 2. maí 1970.
Jóhannes Nordal, fyrsti stjórnarformaður Landsvirkjunar, flutti ávarp við vígslu Búrfellsstöðvar 2. maí 1970.

„Í dag stönzum vér hér aðeins stundarhlé, eins og skáldið forðum, til þess að fagna þessum áfanga í framvindu lands og þjóðar til nútímalegs lífs,“ sagði forseti Íslands, dr. Kristján Eldjárn, þegar hann vígði Búrfellsstöð við hátíðlega athöfn fyrir 50 árum, 2. maí 1970.

Gestir, sem voru 600 talsins, lögðu upp frá Reykjavík í 14 langferðabifreiðum og var í fyrsta áfanga ekið að félagsheimilinu Árnesi, þar sem snæddur var hádegisverður, að því er segir í frásögn Alþýðublaðsins frá 4. maí 1970. Þar fluttu Eiríkur Briem, framkvæmdastjóri Landsvirkjunar og Steinþór Gestsson, oddviti Gnúpverjahrepps, stuttar tölur.

Í vígsluathöfninni í stöðvarhúsinu fluttu Jóhannes Nordal, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Jóhann Hafstein iðnaðarráðherra, Geir Hallgrímsson borgarstjóri og dr. Kristján Eldjárn forseti ávörp. Að því búnu lék Lúðrasveit Reykjavíkur þjóðsöng Íslendinga og ræsti svo forseti vélar virkjunarinnar.

Landsvirkjun var stofnuð 1. júlí 1965. Fimm árum áður höfðu hafist umleitanir og athuganir þær sem leiddu að lokum til samninga um álver í Straumsvík og raforkusölu frá Búrfellsvirkjun, en á þeim tíma var Marshallaðstoðinni var lokið og lýstu bandarísk stjórnvöld því yfir árið 1960 að dregið yrði úr beinum framlögum til Íslands. Bygging Búrfellsvirkjunar og stofnun Landsvirkjunar voru því mikilvæg skref í því að Íslendingar öðluðust fjárhagslegt sjálfræði og sjálfstæði í kjölfar eftirstríðsáranna.

Rekstur Búrfellsstöðvar hefur gengið vel í hálfa öld. Frá því að vélar hennar fóru í gang árið 1969 hefur stöðin alls unnið 91 TWst, sem samsvarar ársnotkun Finnlands af rafmagni.

Á 50 ára afmæli Landsvirkjunar, árið 2015, var gerð heimildamynd um aðdraganda byggingar Búrfellsstöðvar og stofnunar fyrirtækisins. Hana má sjá á YouTube-rás okkar