Frétt

Áframhald EIMS tryggt næstu árin

1. júlí 2020

Landsvirkjun, Orkuveita Húsavíkur, Norðurorka og SSNE undirrituðu á dögunum samning um áframhaldandi samstarf í nýsköpunarverkefninu EIMI. Verkefninu var formlega komið á fót árið 2017 þegar gerður var samningur milli fyrrgreindra aðila til þriggja ára. Vilji var til að halda áfram hinni farsælu samvinnu á sviði sjálfbærni og nýsköpunar í orkumálum og var samningurinn því endurnýjaður til ársins 2023 með möguleika á framlengingu.

Nýsköpunarverkefnið EIMUR er samstarfsverkefni sem hefur bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðausturlandi að leiðarljósi. Markmið samstarfsins er meðal annars að stuðla að uppbyggingu atvinnulífs og að aukinni verðmætasköpun með sérstaka áherslu á sjálfbærni, grænar lausnir, nýsköpun og hátækni á svæðinu. Einnig er lagt upp úr að miðla þekkingu á sviði rannsókna og nýsköpunar á Norðausturlandi í því skyni að efla samkeppni á stærri markaði þar sem styrkleikar Íslands spila lykilhlutverki. Síðastliðin þrjú ár hefur EIMUR meðal annars staðið fyrir kortlagningu auðlinda á NA-landi, alþjóðlegum sumarskóla í hönnun og sjálfbærni í Kröflu, hugmyndasamkeppni og ýmsum kynningarmálum. Einnig hefur EIMUR lagt ríka áherslu á samstarf við háskóla og rannsóknastofnanir. Ráðinn verður framkvæmdastjóri sem leiða mun verkefnið, rannsóknar-og þróunarstjóri og þar að auki verða ráðnir sumarstarfsmenn til stuðnings verkefninu nú í sumar. Öll stöðugildin eru með starfstöð á Húsavík eða á Akureyri.

„Eimur hefur hjálpað okkur á Norðausturlandi við að vekja meiri athygli á nýjum tækifærum til sjálfbærrar nýtingar orkuauðlinda á svæðinu. Það er mikilvægt að við tökum næstu skref á þessari vegferð þannig að líkur aukist enn frekar á því að fyrirtækjum fjölgi sem auka verðmætasköpun á framangreindum forsendum á Norðausturlandi. Það eru mjög spennandi tímar framundan“, segir Kristján Þór, stjórnarformaður EIMS og sveitarstjóri Norðurþings.

„Það er mjög ánægjulegt að EIMUR starfi áfram, enda hefur reynsla undanfarinna ára sýnt að samstarf af þessu tagi skilar miklu,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. „Við hjá Landsvirkjun leitum sífellt nýrra leiða til að nýta þekkingu starfsmanna og rannsóknir þeirra í þágu samfélagsins. Með samstarfi í EIMI við Orkuveitu Húsavíkur, Norðurorku og SSNE höfum við fundið slíka leið til nýsköpunar og atvinnuuppbyggingar heima í héraði. Ég bind miklar vonir við næstu starfsár EIMS.“

„Eimur er sameiginlegt verkfæri okkar til að vekja athygli á, og auka verðmætasköpun úr sjálfbærum orkuauðlindum á svæðinu. Ekkert kemur aðf sjálfu sér og því hefur samstarfið um EIM sýnt sig að vera mikilvægt og nauðsynlegt í viðleitni okkar til að nýta nýsköpun til að ná fram auknum efnahagslegum ávinningi fyrir Norðausturland,“ segir Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku hf. „Við hjá Norðurorku erum stolt að því að fá tækifæri til leggja krafta okkar í verkefni Eims næstu ár.“

Eyþór Björnsson, framkvæmdastjóra SSNE, bætir að lokum við: „Það er mjög ánægjulegt að verkefninu er haldið áfram og ekki síður frábært að finna það að allir aðilar samningsins eru einhuga og samstíga í því.“

Sjá má meira um EIM á www.eimur.is.

Fréttasafn Prenta