Frétt

Áhersla á jafnréttismál bætir vinnustaðinn

11. nóvember 2019

Landsvirkjun, Alcoa Fjarðaál og Landsbankinn héldu vel sótta ráðstefnu um jafnréttismál á vinnustöðum á Egilsstöðum föstudaginn 8. nóvember. Fyrirtækin, sem öll hafa sett jafnréttismál á oddinn um árabil, ræddu hvers vegna áhersla á jafnréttismál væri vinnustöðum og atvinnulífinu mikilvæg. Þá var einnig rætt um ávinning af jafnlaunavottunum og Jafnréttisvísi Capacent.

Hvar eru þær?

Lilja Björk Einarsdóttir bankastjóri Landsbankans flutti erindi undir yfirskriftinni Hvar eru þær? Í erindi hennar kom fram að þrátt fyrir að Ísland skipaði sér í efsta sæti heimslista þegar kæmi að jafnrétti kynjanna hallaði verulega á konur í efsta stjórnunarlaginu hjá stærri fyrirtækjum. Lilja ræddi um hvað Landsbankinn hefði gert til að setja jafnréttismál á oddinn og hvað hefði áunnist. Hún sagði stefnu bankans í þessum málum vera skýra, en það væri ekki nóg, því henni þyrfti að fylgja eftir og hafa sýnileg markmið. Bankinn heldur kynjabókhald til að halda utan um þau sem koma fram fyrir hönd bankans í ræðu og riti og sagði Lilja það hafa hjálpað mjög til að gera þetta með markvissum hætti og nú væri svo komið að hlutfallið væri jafnt. Einnig ræddi hún um mikilvægi fyrirmynda. Lilja tók skýrt fram að árangur í auknu jafnrétti í atvinnulífi næðist ekki nema stjórnendur settu málaflokkinn í forgang.

Mikill ávinningur fyrir fyrirtæki að vinna með jafnréttismál

Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar sagði frá því hvernig áhersla fyrirtækisins á jafnréttismál hefði leitt til betri menningar og betri vinnustaðar fyrir allt starfsfólk. Landsvirkjun ákvað að setja aukna áherslu á jafnréttismál árið 2017 og tók þá upp samstarf við Capacent um Jafnréttisvísi. Þá var ráðist í heildstæða úttekt á stöðu jafnréttismála í fyrirtækinu, ekki aðeins á mælanlegum þáttum eins og kynjahlutafalli og launum heldur einnig á menningu, samskiptum og vinnuumhverfi. Þessi vinna hefur skilað aðgerðaáætlun jafnréttismála til þriggja ára sem fylgt hefur verið eftir með því að setja niður markmið og mælikvarða. Hörður sagði það hafa verið gefandi vinnu að rýna vinnustaðarmenninguna með starfsfólki og komið sér skemmtilega á óvart hversu öll voru viljug að taka þátt í verkefninu. Meðal þess sem hefur verið breytt er að tekin hafa verið upp ný starfsheiti, nýtt ráðningarferli, áhersla á jafnrétti við gerð markaðsefnis og boðið hefur verið upp á jafnréttisþjálfun fyrir stjórnendur.

Það þarf kjark til að ögra vinnustaðarmenningu

Frá því að Fjarðaál tók til starfa hefur fyrirtækið haft metnaðarfull markmið þegar kemur að jöfnu kynjahlutafalli á vinnustaðnum. En eitt er að setja markmið og annað að ná því líkt og Guðný Björg Hauksdóttir framkvæmdastjóri mannauðs greindi frá í erindi sínu. Hlutfall kvenna hefur rokkað upp og niður hjá fyrirtækinu, hæst í 32% árið 2008 og lægst í 19% árið 2015. Með markvissum aðgerðum líkt og breytingu á vaktakerfi og rýningu á vinnustaðarmenningu hefur náðst árangur en Guðný benti á að þetta væri stanslaust verkefni og ekki mætti slá slöku við. Guðný greindi einnig frá því hvernig fyrirtækið tókst á við #metoo byltinguna með því að bjóða upp á kynjaskipta fundi fyrir alla starfsmenn í fyrirtækinu og út úr þeirri vinnu kom vinnustaðarsáttmáli sem starfsfólk kvittaði undir með táknrænum hætti. Það var áberandi krafa bæði kvenna og karla í þessari vinnu að allir vildu vinna á vinnustað þar sem heilbrigð vinnustaðarmenning væri ríkjandi. Að lokum benti Guðný á að við ættum enn heillangt í land hér á landi hvað það varðar að styrkja stöðu kvenna í stjórnendastöðum og eins að létta af þeim álagi á heimili svo þær hefðu jöfn tækifæri til að sækja fram í atvinnulífinu.

Fyrirtæki ánægð með jafnlaunavottun

Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar var félagsmálaráðherra þegar lög um jafnlaunavottun voru samþykkt frá Alþingi. Þorsteinn greindi frá því að samkvæmt nýlegri könnun sem unnin var fyrir forsætisráðuneytið væri 81% vottaðra fyrirtækja mjög eða frekar ánægt með Jafnlaunavottunina og þá fannst 75% fyrirtækja vottunin auka yfirsýn og skilvirkni í rekstri. Þegar jafnlaunavottunin var kynnt til sögunnar höfðu mörg fyrirtæki áhyggjur af kostnaði sem vottunarferlið myndi hafa í för með sér en í fyrrnefndri könnun var kostnaður í 8. sæti af 12 valmöguleikum yfir erfiðleika við innleiðingu. Þorsteinn ræddi einnig um mikilvægi þess að karlar létu til sín taka í umræðunni og baráttunni fyrir jafnréttismálum og að þeir litu ekki á hana sem ógn við sig. Kynjajafnrétti væri allra hagur og Þorsteinn sagði að samkvæmt rannsóknum lifðu karlmenn lengur í samfélögum þar sem jafnrétti ríkir.

Jafnréttisvísir Capacent

Þórey Vilhjálmsdóttir ráðgjafi og meðeigandi hjá Capacent greindi frá Jafnréttisvísi Capacent, sem er verkefni fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja stuðla að vitundarvakningu um jafnréttismál og móta skýr markmið í framhaldinu. Staðan í fyrirtækinu er metin út frá ítarlegri greiningarvinnu og komið er á fót breytingaverkefnum til að bæta stöðu jafnréttismála og innleiða þau. Notaðir eru mælikvarðar eins og kynjahalli í launadreifingu og glerþakslíkan. Einnig er leitast við það að fá upp á yfirborðið þá ómeðvituðu kynbundnu fordóma sem oft leynast í menningu, umhverfi og skipulagi fyrirtækja. Fyrirtæki og stofnanir sem taka þátt í verkefninu hljóta viðurkenningu þar sem formlega er vottað að fyrirtækið sé aðili að Jafnréttisvísi Capacent. Þórey sagði einnig frá lærdóminum sem hún og samstarfsfélagar hafa dregið af vinnunni með Jafnréttisvísinum, en þau hafa tekið yfir 200 viðtöl við fólk á vinnustöðum og yfir 2.000 manns hafa mætt á vinnustofur hjá þeim.

Í lokin sátu þau sem fluttu erindi á ráðstefnunni fyrir svörum í pallborði. Ráðstefnunni stýrði Dagmar Ýr Stefánsdóttir yfirmaður samskipta og samfélagsmála hjá Fjarðaáli. Hægt er að nálgast upptöku af ráðstefnunni á facebook síðu Austurfréttar, þar sem ráðstefnunni var streymt beint á meðan á henni stóð.  

Fréttasafn Prenta