Frétt

Áhrif Fljótsdalsstöðvar á fiskilíf í Lagarfljóti og Jökulsá á Dal

15. júlí 2013
Á myndinni má sjá Hálslón, stærsta lón Kárahnjúkavirkjunar

Landsvirkjun hefur rekið Fljótsdalsstöð í rúmlega fimm ár frá lokum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun. Framkvæmdir hófust árið 2003 og aflstöðin í Fljótsdal var komin í rekstur árið 2007. Með tilkomu virkjunarinnar var Jökulsá á Dal (Jöklu) veitt í Jökulsá í Fljótsdal sem rennur í Lagarfljót. Í mati á umhverfisáhrifum virkjunarinnar kom skýrt fram að virkjun þessara vatnsfalla myndi hafa áhrif á lífríki þeirra. Þessi áhrif hafa komið fram en Jökulsá á Dal hefur misst megnið af þeim jökuláhrifum sem í henni voru og rennur nú næstum tær til sjávar, nema í þann tíma sem Hálslón fer á yfirfall. Lagarfljót hefur hinsvegar tekið við hluta af þeim jökuláhrifum sem í Jöklu voru og hefur rýni (gegnsæi) þar minnkað frá því sem áður var.

Lagarfljót telst vera jökulskotið stöðuvatn en áður en vatnaflutningar vegna virkjunar hófust gat rýni verið að sumarlagi 30-25 sm við Egilsstaði en hefur nú minnkað um helming og nær sólarljós nú niður á 17-10 sm dýpi samkvæmt mælingum Veiðimálastofnunar og Veðurstofu Íslands. Vegna minnkandi rýnis í Lagarfljóti hefur lífræn framleiðsla og lífsskilyrði versnað.

Stærð fiskistofna eru einn mælikvarði á lífríki Lagarfljóts og í nýútkominni skýrslu sem starfsmenn Veiðimálastofnunar hafa unnið fyrir Landsvirkjun er gerð grein fyrir þeim.

 

Helstu niðurstöður skýrslunnar eru dregnar saman hér að neðan:

Rýrnun fiskistofna í Lagarfljóti hófust samkvæmt mælingum að líkindum fyrir virkjunarframkvæmdir. Nýlegar niðurstöður sýna lítillega fjölgun frá síðustu mælingum

Niðurstöður skýrslunnar sýna að fiskistofnar í Lagarfljóti hafa rýrnað jafnt og þétt frá mælingum sem gerðar voru árið 1998. Verst var útkoman í mælingum sem gerðar voru árið 2010 en hefur lagast lítillega samkvæmt þeim mælingum sem voru gerðar árin 2011 og 2012 og eru kynnt í nýútkominni skýrslu. Mikilvægt er samt að minna á að gögn eru af skornum skammti og því ber að taka ákveðna óvissu með í reikninginn þegar þessar tölur eru skoðaðar.

Líkt og áður sagði hóf Fljótsdalsstöð rafmagnsframleiðslu og vatnaflutninga árið 2007. Árin 2005-2006 virðast hinsvegar bleikjustofnar Lagarfljóts hafa dregist saman um nær helming frá  1998 en það eru elstu gögnin sem eru samanburðarhæf. Frekari samdráttur varð árið 2010 en það var fyrsta mæling eftir að vatnaflutningar hófust. Meðalfjöldi og meðalþyngd bleikja hefur dregist saman í Lagarfljóti samkvæmt mælingum sem voru framkvæmdar fyrir og eftir virkjun. Á meðfylgjandi mynd má sjá að fyrsta mæling eftir virkjun árið 2010 sýnir mikla fækkun sem gengur að nokkru leyti til baka árin  2011 og 2012.

Screen Shot 2013-07-15 at 10.28.43 PM

Urriðastofnar sýna flóknara munstur.  Til dæmis við Egilsstaði virðist urriða hafa fjölgað á tímabilinu 1998 til 2006 en fellur svo niður eftir virkjun. Við Hallormsstað hafa hinsvegar ekki orðið miklar breytingar á fjölda urriða frá því sem var áður en virkjun var gangsett.

Fiskgengd í Jökulsá á Dal hefur aukist töluvert í kjölfar virkjunarframkvæmda

Töluverð áhrif af framkvæmdum hafa komið fram í Jökulsá á Dal og eru þau jafnvel meiri en gert var ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum. Fljótið hefur misst megnið af þeim jökuláhrifum sem einkenndu það og rennur nú nær tært til sjávar utan þann tíma sem Hálslón fer á yfirfall.

Fiskgengd hefur í kjölfarið aukist umfram það sem spáð var um og stendur til að efla rannsóknir á Jökulsá á Dal og greina þessar breytingar betur.

Áhrif enn ekki að fullu komin fram en frekari rannsóknir á fæðu og holdafari ungfiska framundan

Niðurstöður skýrslunnar sýna að ákveðin vatnadýr s.s. vorflugur, vatnabobbar og svifkrabbar hafa nær horfið úr fæðu fisks en í staðinn hefur hlutfall skordýra af landrænum uppruna aukist. Það helst í hendur við minnkandi frumframleiðni vatnsins. Vísbendingar eru einnig um að stærð við ákveðinn aldur hafi minnkað og fiskur sé því smærri en áður.

Stór hluti þeirra fiska sem veiðast nú í Lagarfljóti, eru fiskar sem klöktust úr hrogni áður en virkjun var gangsett og vatnaflutningar hófust. Yngri fiskur er smátt og smátt að komast inn í veiðina og áhugavert verður að sjá hvað gerist þegar lífríkið hefur aðlagast breyttum aðstæðum betur. Landsvirkjun mun því halda áfram að láta rannsaka fiskistofna Lagarfljóts og fylgjast með hvað gerist þegar fiskar klaktir eftir að vatnaflutningar hófust verða ráðandi í veiði og breytingar að fullu komnar fram.

Samráð við hagsmunaaðila og sveitastjórn um næstu skref

Landsvirkjun mun halda áfram að fylgjast með áhrifum af framkvæmdum og rekstri Fljótsdalsstöðvar á Lagarfljót og mun í samvinnu við veiðiréttareigendur og aðra hagsmunaaðila skoða mögulegar mótvægisaðgerðir.

Niðurstöður rannsókna á umhverfisáhrifum Fljótsdalsstöðvar og Álversins í Reyðarfirði voru kynntar á ársfundi Sjálfbærniverkefnisins í maí síðastliðinn. Sjá frétt hér.

Skýrsla: Fiskirannsóknir á vatnasviði Lagarfljóts, Jökulsár á Dal, Fögruhlíðarár og Gilsár 2011 og 2012 [PDF]

Fréttasafn Prenta