Frétt

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun umhverfismatsskýrslu fyrir Bjarnarflagsvirkjun kærð

16. desember 2014

Landsvirkjun hefur ákveðið að bera ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu Bjarnarflagsvirkjunar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Með ákvörðun dagsettri þann 7. nóvember síðastliðinn komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að endurskoða þurfi skýrslu um mat á umhverfisáhrifum vegna Bjarnarflagsvirkjunar.  Í ákvörðun Skipulagsstofnunar kemur fram að endurskoðunin snúi að eftirtöldum forsendum eða áhrifum: Hljóðvist, grunn og yfirborðsvatns, loftgæðum, niðurrennslis, gróðri, skjálftavirkni, landslagi, jarðhitakerfis, ásýnd, orkuforða og ferðamennsku.

Eftir ítarlega skoðun á ákvörðun Skipulagsstofnunar er það mat Landsvirkjunar að ekki hafa orðið verulegar breytingar á öllum framangreindum þáttum sem er skilyrði fyrir endurskoðun skv. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Að mati Landsvirkjunar tók Skipulagsstofnun ekki tillit til umsagna stofnana eins og Orkustofnunar, Umhverfisstofnunar og fleiri, sem töldu að ekki hefðu orðið verulegar breytingar á framangreindum forsendum. Tóku þær jafnframt fram í mörgum tilvikum að ekki væri þörf á endurskoðun eða að endurskoðun myndi ekki veita frekari upplýsingar en þegar liggja fyrir.  Þá var ekki tekið tillit til breyttra framkvæmdaáforma Landsvirkjunar, um 45 MW virkjun í stað 90 MW, sem hefði átt að hafa umtalsverð áhrif á niðurstöðu ákvörðunar.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar er verulega íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun og felur í sér að Landsvirkjun þarf að fara í mjög kostnaðarsama og umfangsmikla endurskoðun á þáttum matsskýrslu, sem fagstofnanir telja að leiði ekki til frekari upplýsinga eða sé þörf á.  Það er skilyrði í stjórnsýslurétti að íþyngjandi ákvarðanir eigi sér skýra lagastoð og að gætt sé meðalhófs við töku þessháttar ákvörðunar.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar er eða finna svohljóðandi umfjöllun um lagaumgjörð endurskoðunar:

„Þetta er í fyrsta sinn sem fram fer málsmeðferð á grundvelli framangreinds lagaákvæðis, en málsmeðferðin er ekki útfærð í lögum eða reglugerð.  Umfjöllun um málið hefur því jafnframt falið í sér ákvarðanir um útfærslu málsmeðferðar og hefur af þeim sökum orðið tímafrekari en er að vænta í sambærilegum málum framvegis. Í lögum og reglugerð um mat á umhverfisáhrifum eru eins og áður segir ekki ákvæði um málsmeðferð við ákvarðanatöku um endurskoðun matsskýrslu á grundvelli 12. gr. laganna.  Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því.“

Landsvirkjun tekur undir ofangreinda umfjöllun í ákvörðun Skipulagsstofnunar um að lög og reglur um endurskoðun matsskýrslu þurfa að vera skýrari og því æskilegt að gerð verði breyting á lögum um mat á umhverfisáhrifum og/eða sett reglugerð um framkvæmd endurskoðunar matsskýrslu.  Mikilvægt er í þessu efni að settar verði skýrar reglur um með hvaða hætti skuli staðið að töku ákvörðunar um endurskoðun matsskýrslu og að gerðar verði breytingar á heimildum framkvæmdaraðila til að óska eftir endurskoðun einhliða, óháð frestum.

Í ljósi málsmeðferðar og niðurstöðu Skipulagsstofnunar vegna endurskoðunar matsskýrslu Bjarnarflags, þess fordæmis sem sú niðurstaða getur skapað, svo og þeirra hagsmuna Landsvirkjunar sem eru í húfi, hefur Landsvirkjun ákveðið að bera ákvörðun Skipulagsstofnunar undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Sjá einnig frétt frá 12. nóvember sl.

Fréttasafn Prenta