Frétt

Allar hliðar komi fram

21. september 2015
Hér er texti

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar.

Sem kunnugt er færði Alþingi Hvammsvirkjun aftur í orkunýtingarflokk rammaáætlunar þann 1. júlí síðastliðinn. Í kjölfarið hafa leyfisveitendur virkjunarinnar, Rangárþing ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppur, óskað eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar áum það hvort endurtaka þurfi mat á umhverfisáhrifum, að hluta eða í heild. Nú stendur yfir rýni Skipulagsstofnunar á umhverfismati virkjunarinnar.

Tilgangur þessarar greinar er að vekja athygli á því að frestur almennings til að koma athugasemdum á framfæri við Skipulagsstofnun er til og með 28. september næstkomandi. Afar mikilvægt er að sem flestar hliðar málsins komi fram, svo ferli samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nái tilgangi sínum.

Landsvirkjun hefur um árabil unnið að rannsóknum og undirbúningi virkjunarinnar. Virkjunin verður staðsett á stærsta aflsvæði Landsvirkjunar, Þjórsár- og Tungnaársvæðinu, en þar eru fyrir sex aflstöðvar sem virkja kraft þessara tveggja vatnsfalla. Hvammsvirkjun mun nýta fall Þjórsár neðan Búrfellsvirkjunar, frá svokölluðu Yrjaskeri rétt ofan við bæinn Haga og niður fyrir Ölmóðinsey austan við Þjórsárholt.

Verkefnastjórn 2. áfanga rammaáætlunar flokkaði Hvammsvirkjun á sínum tíma í orkunýtingarflokk og mælti með að virkjunin fengi framgang. Mat á umhverfisáhrifum lá fyrir árið 2003, en samkvæmt lögum þurfa leyfisveitendur, ef framkvæmdir hefjast ekki innan 10 ára, að fá ákvörðun Skipulagsstofnunar um það hvort umhverfismat haldi gildi sínu eða að forsendur hafi breyst þannig að endurskoða þurfi matsskýrslu að hluta eða öllu leyti.

Helstu breytingar sem hafa verið gerðar á virkjuninni frá 2003 eru eftirfarandi: flatarmál lóns hefur minnkað um 15% og rúmmál um 25%, flóðvar hefur verið sett í stíflumannvirki, stöðvarhús rís fimm metra yfir land í stað 18 metra áður, gert er ráð fyrir tveimur hverflum í stað eins og byggð verður sérstök seiðafleyta fyrir niðurgönguseiði. Síðan mat á umhverfisáhrifum fór fram hefur stöðugt verið unnið að rannsóknum á fiskistofnum árinnar og hefur þekking okkar á þeim aukist verulega. Meðal annars er nú til nokkuð nákvæmt mat á stofnstærð laxa í ánni og veiðiálag er þekkt.

Mat á umhverfisáhrifum frá árinu 2003, ásamt sérfræðiskýrslum og öðrum fylgigögnum sem tengjast matinu, má nálgast á landsvirkjun.is.

Fréttasafn Prenta