Frétt

Alþjóðlegur hópur sérfræðinga kannar möguleika á að bora í bergkviku í Kröflu

19. september 2014

Um 50 vísindamenn og verkfræðingar víðs vegar að úr heiminum, bæði eldfjallafræðingar og sérfræðingar í jarðhita, hafa verið á vinnufundi í Kröflustöð Landsvirkjunar síðastliðna viku. Meginstyrktaraðilar fundarins eru alþjóðleg samtök um “International Continental Scientific Drilling Program” sem og Landsvirkjun.

Bergkvikuboranir gætu aukið skilning á innviðum eldfjalla

Á fundinum voru yfirfarnar tillögur um boranir í bergkviku sem liggur grunnt í jarðskorpunni í Kröflu. Markmið slíkra boranna er að auka skilning á innviðum eldfjalla, rannsaka skilin á milli kviku og fasts bergs, og að yfirfara praktísk not af þessum aðstæðum, svo sem hvort nýta megi varma kvikunnar beint í jarðhitavinnslu.

Frekari rannsóknir gætu auk þess leitt til aukins almenns skilnings á kvikukerfum eldfjalla sem og hættum sem stafa af eldvirkni á svæðum þar sem kvika liggur grunnt í jarðskorpunni.

Öflug kvikuhola í Kröflu

Við boranir á svæðinu á undanförnum árum hafa borholur náð niður í bergkviku á um 2.1-2.5 km dýpi. Sýni af kvikunni, snöggkældri og storknaðri, komu upp úr borholunum með skolvatni. Efnasamsetning kvikunnar er sambærileg við ríólít (líparít). Slík kvika er algeng í megineldstöðvum Íslands og er oft talin myndast við uppbræðslu ummyndaðarar jarðskorpu vegna hás hita í rótum megineldstöðva.

Sjá nánar um kvikuholuna í Kröflu og hið íslenska djúpborunarverkefni 

Fréttasafn Prenta