Frétt

Annmarkar á friðlýsingaferli virkjunarkosta í 2. áfanga rammaáætlunar

11. september 2019


Vegna umfjöllunar um friðlýsingu virkjunarkosta í verndarflokki 2. áfanga rammaáætlunar vill Landsvirkjun koma eftirfarandi á framfæri.

Fyrirtækið styður heilshugar við markmið rammaáætlunar og þar með talið friðlýsingu verðmætra landsvæða. Landsvirkjun telur hins vegar að miklir annmarkar séu á túlkun umhverfis- og auðlindaráðuneytis á því hvernig slík friðlýsing eigi að eiga sér stað.

Afmörkun friðlýstra svæða of umfangsmikil

Með svo víðtækri friðlýsingu sem lögð er til er verið að koma í veg fyrir orkunýtingu á stórum svæðum um ókomna framtíð. Á viðkomandi svæðum geta verið aðrir virkjunarkostir sem ekki hafa verið skoðaðir en væru ásættanlegir m.t.t. áhrifa á umhverfi og samfélag. Í greinargerð með lagafrumvarpinu um rammaáætlun er það skýrt tekið fram að verndun heilla vatnasviða þar sem virkjunarkost í verndarflokki er að finna sé ekki alls sjálfgefin.

Landsvirkjun hefur síðustu ár margítrekað bent á þessa annmarka í samskiptum við stjórnvöld og á opinberum vettvangi.

Ítrekaðar athugasemdir Landsvirkjunar

Í friðlýsingarferlinu um virkjunarkosti í verndarflokki annars áfanga rammaáætlunar sendi Landsvirkjun inn umsagnir um virkjunarkosti á sínum svæðum sem og inn almenna umsögn um annmarka á friðlýsingarferlinu. Landsvirkjun fjallaði ekki sérstaklega um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Þegar tillögur Umhverfisstofnunar í friðlýsingarferlinu lágu fyrir sendi fyrirtækið umhverfis- og auðlindaráðuneytinu bréf í ágúst síðastliðnum. Eftirfarandi eru aðalefnisatriði þess:

  • Miklir annmarkar eru á undirbúningi að friðlýsingu svæða á grundvelli flokkunar virkjunarkosta í verndarflokki rammaáætlunar. Landsvirkjun telur að málsmeðferð fylgi ekki ákvæðum laga um rammaáætlun. Í athugasemdum við lagafrumvarpið er það skýrt tekið fram að verndun heilla vatnasviða þar sem virkjunarkost í verndarflokki er að finna sé alls ekki sjálfgefin.
  • Það er meginregla stjórnsýsluréttarins að íþyngjandi ákvarðanir þurfa að eiga sér skýra lagastoð. Að mati Landsvirkjunar er ljóst að skýr lagastoð er ekki fyrir hendi. Í ljósi réttaráhrifa friðlýsingar og þeirra ríku hagsmuna sem eru undir er brýnt að hafið sé yfir allan vafa að lagafyrirmælum sé fylgt.
  • Mikilvægt er að vandað sé til verka við undirbúning friðlýsingar og framkvæmd hennar og tryggt að málsmeðferð við ákvörðunartöku sé lögum samkvæmt og að gætt sé meðalhófs.
  • Samkvæmt lögum um rammaáætlun sem og lögskýringargögnum er gert ráð fyrir að Alþingi flokki ekki einungis virkjunarkosti heldur eigi það jafnframt að afmarka þau landsvæði sem ástæða þykir til að friðlýsa gagnvart orkuvinnslu. Landsvirkjun hvetur því umhverfis- og auðlindaráðherra til að leita fulltingis Alþingis varðandi afmörkun svæða og að gera þær breytingar á lögum sem nauðsynlegar teljast áður en farið er að friðlýsa víðfeðm landsvæði gagnvart orkuvinnslu.

Bréf til Umhverfis- og auðlindaráðuneytis varðandi friðlýsingar virkjunarkosta í 2. áfanga rammaáætlunar

Fréttasafn Prenta