Fimmti ársfundur sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaráls og Landsvirkjunar var haldinn á Fáskrúðsfirði 6. maí síðastliðinn.
Sérstakt þema fundarins var efnahagsvísar sjálfbærniverkefnisins og efnahagsmál. Á fundinum voru kynntar niðurstöður vöktunar á efnahagsvísum verkefnisins ásamt efnahagi sveitafélaga. Einnig var farið yfir þróun og efnahagsbreytur samfélagsins og hvað teljist mælikvarði á árangur ásamt kynningu á auðstofnum og sjálfbærni. Unnið var í hópavinnu tengt þema fundarins um efnahagsvísa.
Áhugaverðar niðurstöður vöktunar á sviði samfélags og umhverfi voru einnig kynntar. Helgi Jóhannesson, verkefnastjóri hjá Landsvirkjun, fór yfir færslu óss Lagafljóts og Jöklu. Fulltrúar Alcoa Fjarðaráls kynntu vöktun á flúor í grasi og áhrif þess á samfélagið.
Nánar má kynna sér ársfundinn, dagskrá og glærur framsögumanna á heimasíðu verkefnisins.
Sjálfbærniverkefnið var stofnað af Landsvirkjun og Alcoa Fjarðarál til að fylgjast með áhrifum framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og álversins á Reyðarfirði á nærumhverfi sitt. Verkefnið gengur út á það að fylgst er með þróun meira en 40 vísa, sem í flestum tilfellum eru tölulegir mælikvarðar. Vísarnir gefa vísbendingu um þróun umhverfis- efnahags- og samfélagsmála á byggingar- og rekstartíma álvers og virkjunar.