Frétt

Ársfundur sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaráls og Landsvirkjunar

8. maí 2013
Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaráls, og Georg Þór Pálsson, stöðvarstjóri Fljótsdalsstöðvar, á ársfundi verkefnisins

Á ársfundi sjálfbærniverkefnis Alcoa Fjarðaráls og Landsvirkjunar voru kynntar niðurstöður vöktunar á áhrifum Fljótsdalsstöðvar (Kárahnjúkavirkjunar) og álversins í Reyðarfirði á samfélag, umhverfi og efnahag á Austurlandi. Til að fylgjast með þessum áhrifum voru þróaðir yfir 40 vísar sem uppfærðir eru árlega. Fulltrúar Landsvirkjunar kynntu niðurstöður mælinga á lífríki, vatnabúskap og landrofi en niðurstöðurnar ásamt fleiri mælingum á samfélagsáhrif og efnahagsáhrif má kynna sér á eftirfarandi vefslóð: www.sjalfbaerni.is

Á fundinum kom meðal annars fram:

  • Stofn heiðagæsa hefur vaxið, en hann hefur verið í vexti á öllu landinu síðustu áratugi. Stofn hreindýra hefur haldist stöðugur en stofnstærð er stýrt með breytilegum veiðikvótum. Virðast virkjunarframkvæmdir ekki hafa haft þau áhrif á þessar dýrategundir sem óttast var. 
  • Athuganir sýna að hávellum á Lagarfljóti hefur farið fækkandi sem og sambærilegum andfuglum líkt og skúfönd og stokkönd. Óljóst er hvort fækkunin sé af völdum framkvæmda eða náttúrulegra orsaka og er frekari rannsókna þörf.
  • Ljóst er að lífsskilyrði fiska í Lagarfljóti hafa versnað eins og við var búist. Rannsóknir 2011 og 2012 sýna hinsvegar að ástand fiskistofna í Lagarfljóti hafi batnað frá mælingum 2010. Vöktun fiskistofna verður haldið áfram.  
  • Vatnsyfirborð í Lagarfljóti við Egilsstaði hefur hækkað meira en líkanareikningar gáfu til kynna vegna aukins rennslis. Þriðjung af þeirri hækkun má rekja til aukins rennslis frá Hálslóni en tvo þriðju hluta hækkunarinnar má rekja til meira náttúrulegs afrennslis af vatnasviði Lagarfljóts. 
  • Gerð hefur verið úttekt á ástandi lands við bakka Lagarfljóts og Jökulsár í Fljótsdal með tilliti til landbrots. Ekki var lagt mat á rofhraða og ástæður rofs. Of skammur tími er liðinn frá því að Kárahnjúkavirkjun var tekin í rekstur til að hægt sé að leggja mat á hvort og þá hversu mikið rofhraði við Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót hefur aukist frá því sem var áður en virkjunin tók til starfa. Engu að síður er ljóst að á nokkrum stöðum þarf að bregðast við landbroti.
  • Landsvirkjun mun skoða hugsanlegar mótvægisaðgerðir hvað varðar lífríki og landrof í samráði við hagsmunaaðila en það samstarf er nú þegar hafið.
 

Lífríki

Kynnt var vöktun á lífríki og dregnar fram niðurstöður hvað varðar heiðagæsir, varpfugla á úthéraði, hreindýr og vatnalíf í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti

Heiðagæsir

Talið var að bygging og rekstur virkjunarinnar myndi hafa töluverð neikvæð áhrif á heiðagæsir á svæðinu. Annars vegar vegna þess að hluti varp- og beitilanda heiðagæsa færi undir Hálslón og hins vegar aukinnar truflunar vegna byggingaframkvæmda á svæðinu ásamt betra aðgengi að afskekktum lendum heiðagæsarinnar

Náttúrustofa Austurlands vaktar breytingar á heiðagæsastofninum en fjöldi para í völdum byggðum á vatnasviði Jökulsár á Dal og í Fljótsdal var talinn ásamt fjölda gæsa í sárum á Snæfellsöræfum.

Talningar sýna að heiðagæs hafi fjölgað á áhrifasvæði virkjunar líkt og annarstaðar á landinu. Ástæður þess geta verið margvíslegar en mildir vetur og aukin kornrækt á Skotlandi skipta líklega miklu máli. Framkvæmdir og síðar rekstur virkjunarinnar virðast því ekki hafa valdið fækkun á heiðagæsum.

Varpfuglar á úthéraði

Náttúrustofa Austurlands vaktar breytingar á andfuglum og skúmi en athuguð var dreifing og fjöldi Hávella á Lagarfljóti að sumarlagi, fjöldi skúma í varplandi á aurum Jökulsár á Dal og ysta hluta Úthéraðs næst Héraðsflóa.

Athuganir sýna að hávellum á Lagarfljóti hefur farið fækkandi sem og sambærilegum andfuglum líkt og skúfönd og stokkönd. Möguleg skýring fyrir þessari fækkun andfugla getur verið aukið grugg í Lagarfljóti sem getur rýrt fæðuskilyrði. Það vakti þó athygli að fækkun hefst strax árið 2007 en það sumar er Hálslón að fyllast í fyrsta sinn og vatnaflutningur ekki hafinn. Aðrar skýringar geta verið tengdar stofnbreytingum, en lítið er vitað um ástand stofnsins hér við land eða hvort dreifing hafi breyst með einhverjum hætti. Ástæða þykir til að skoða þessar breytingar frekar.

Skúm hefur einnig fækkað við Jökulsá á Dal en ástæður fækkunarinnar eru óþekktar. Mögulega færa fuglarnir sig til ef aðstæður breytast milli ára á varpútbreiðslusvæðinu á Úthéraði. Það er því ekki hægt að fullyrða að fækkað hafi í heildina á Úthéraði þó greinileg fækkun hafi greinst við Jöklu.        

Aðrar hugsanlegar ástæður geta verið breytingar á aðstæðum en aðgengi manna og dýra hefur batnað og því er mögulega meira afrán. Á móti  kemur að áreyrar hafa verið græddar upp að hluta sem almennt ætti að koma fleiri fuglategundum til góða í framtíðinni.

Hreindýr

Náttúrustofa Austurlands og Verkfræðistofnun Háskóla Íslands vakta fjölda hreindýra og dreifingu þeirra á Snæfellsöræfum; það er á Brúaröræfum, Vesturöræfum, undir Fellum, á Múla og Hraunum.

Athuganir sýna að miklar breytingar eiga sér stað á hreindýrahjörðum en dýrum hefur fjölgað á undanförnum árum og virðast þau færa sig á milli staða. Stofn hreindýra hefur haldist stöðugur en stofnstærð er stýrt með breytilegum veiðikvótum. Virðast virkjunarframkvæmdir ekki hafa haft þau áhrif á hreindýrastofninn sem óttast var.

Landsvirkjun hefur á undanförnum árum styrkt rannsóknir á ferðaatferli hreindýra. Í tengslum við þær rannsóknir hefur gróðurkort af því svæði sem Snæfellshjörðin nýtir að sumarlagi verið uppfært. Landsvirkjun hefur staðið fyrir rannsóknum sem tengjast burðarssvæðum og burðartíma, en það er viðbótarvöktun í samræmi við úrskurð umhverfisráðherra. Þessar rannsóknir eru framkvæmdar af Verkfræðistofnun HÍ og Náttúrustofu Austurlands.

Áætlað er að taka saman niðurstöður þessara rannsókna í heild á árinu 2013 og endurskoða hluta vöktunar stofnsins á grundvelli þeirra.

Vatnalíf í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti

Vöktun á vatnalífríki Jökulsár á Dal og Lagarfljóts er í höndum Veiðimálastofnunar. Mæld var tegundasamsetning og ástand fiskjar í Lagarfljóti (bleikja og urriði) ásamt tegundasamsetningu og útbreiðslu fiska í Jökulsá á Dal og Lagarfljóti og hliðarám þeirra, ásamt skráningu Veiðimálastofnunar á veiði í ám.

Frá upphafi var ljóst að bygging og rekstur Fljótsdalsstöðvar myndi hafa mikil áhrif á bæði þessi vatnsföll. Jökulsá á Dal hefur dregið úr jökuláhrifum og orðið tærari en jökuláhrif hafa aukist í Lagarfljóti og gagnsæi hefur minnkað.

Gagnsæi vatns er einn af lykilþáttum fyrir lífríki bæði lífræna framleiðslu og tegundasamsetningu. Lífræn framleiðsla hefur dregist saman í Lagarfljóti en aukist í Jökulsá á Dal. Landsvirkjun hefur í samvinnu við Veiðimálastofnun staðið fyrir rannsóknum á strandlífi sem ná bæði til þörunga og smádýra í Lagarfljóti fyrir og eftir virkjun, sem enn standa yfir. Tilgátan er að gruggið og minnkað gagnsæi dragi úr framleiðslu þörunga og rýri þar með skilyrði smádýra sem fiskurinn þrífst á.

Niðurstöður mælinga Veiðimálastofnunar eru að bleikjuveiði hefur minnkað í Lagarfljóti en sá samdráttur hefur reyndar einnig orðið á landsvísu. Urriðaveiði hefur minnkað lítillega í Lagarfljóti en hefur verið að aukast um allt land.

Meðalfjöldi og meðalþyngd bleikja í eina netaseríu hefur dregist saman í Lagarfljóti samkvæmt mælingum sem voru framkvæmdar fyrir og eftir virkjun. Á meðfylgjandi mynd má sjá að fyrsta mæling eftir virkjun árið 2010 sýnir mikla fækkun sem gengur að nokkru leyti til baka árin  2011 og 2012.

Breytingar á vatnabúskap

Vatnsborð í Lagarfljóti við Egilsstaði á tímabilinu 2008-2011 hefur hækkað meira en líkanreikningar byggðir á rennsli í fljótinu 1975-2001 gáfu til kynna. Mismunurinn er 0,07 m á ársgrundvelli en munurinn yfir háveturinn er  0,11-0,18 m í nóvember-febrúar.

Niðurstöður mælinga benda ekki til að þennan mun megi skýra með breytingum á farvegi. Vatnshæð við Lagarfossvirkjun er ekki marktækt frábrugðin því sem miðað var við í líkanreikningum.

Samkvæmt mælingum á rennsli við Lagarfossvirkjun er meðalrennsli áranna 2008-2011  um 15% meira  en á viðmiðunartímabilinu 1975 til 2001, sem samsvarar 30 m3/s.  Þriðjungur af þessari aukningu skýrist af meira rennsli frá Hálslóni en miðað var við í líkanreikningum en 2/3 hlutar rennslisaukningarinnar eiga sér náttúrulegar skýringar.

Rof á árbökkum Jökulsár á Dal og Lagarfljóts

Ár eru mjög breytileg kerfi og rof við árbakka er náttúrulegur hluti þeirra.  Framkvæmdir geta haft áhrif á þessi náttúrulegu ferli m.a. getur breytt rennsli haft áhrif á landbrot við árbakka.  Með tilkomu Hálslóns og Fljótsdalsstöðvar hafa orðið breytingar á vatnsrennsli Jökulsár í Fljótsdal og Lagarfljóts. Landsvirkjun bað Landgræðslu ríkisins að gera úttekt á ástandi lands við bakka Lagarfljóts og Jökulsár í Fljótsdal með tilliti til landbrots. Svæðið nær frá Fljótsdalsstöð til sjávar um 100 km leið. Markmið verkefnisins var að fá heildar yfirlit yfir stöðu landbrots við Lagarfljót og Jökulsá í Fljótsdal. Ekki var lagt mat á rofhraða og ástæður rofs.  Heildarlengd árbakka sem úttektin var unnin á nam 211,5 km.  Þar af var lítilsháttar eða ekkert landbrot á um 161 km, talsvert landbrot á 36,5 km en mikið landbrot reyndist vera á um 14 km.

Of skammur tími er liðinn frá því að Fljótsdalsstöð var tekin í rekstur til að hægt sé að leggja mat á hvort og þá hversu mikið rofhraði við Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót hefur breyst frá því sem var áður en stöðin tók til starfa. Engu að síður er ljóst að á nokkrum stöðum þarf að bregðast við landbroti og mikilvægt að vinna við varnir sé unnin áfram í náinni samvinnu milli Landsvirkjunar og hagsmunaðila. Varðandi hólma við Lagarfljótsbrú er tímabært að huga að því hvernig snyrtilegast er að verja þá.

Fréttasafn Prenta