Frétt

Ársreikningur Landsvirkjunar 2015

19. febrúar 2016
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar og Landsvirkjunar Power ehf.

Mesta raforkusala í sögu fyrirtækisins eða 13,9 TWst

  • Nettó skuldir lækka um 26 milljarða króna frá fyrra ári.

Helstu atriði ársreiknings:

  • Rekstrartekjur námu 421,5 milljónum USD (54,0 ma.kr.) sem er 3,8% lækkun frá árinu áður.1
  • EBITDA nam 321,5 milljónum USD (41,2 ma.kr.). EBITDA hlutfall er 76,3% af tekjum, en var 75,8% árið áður.
  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 130,6 milljónum USD (16,7 ma.kr.), en var 146,9 milljónir USD árið áður og lækkar því um 11,1% milli ára.
  • Hagnaður ársins var 84,2 milljónir USD (10,8 ma.kr.) en var 78,4 milljónir USD árið áður.
  • Nettó skuldir lækkuðu um 205,0 milljónir USD (26,2 ma.kr.) á árinu 2015 og voru í árslok 1.985,4 milljónir USD (254,1 ma.kr.).
  • Handbært fé frá rekstri nam 249,0 milljónum USD (31,9 ma.kr.) sem er 6,5% hækkun frá árinu áður.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Afkoma ársins var góð í krefjandi umhverfi. Rekstrarhagnaðarhlutfall (EBITDA hlutfall) hækkaði á milli ára, þótt álverð hafi farið lækkandi að undanförnu og mikil óvissa hafi ríkt á mörkuðum. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 16,7 milljörðum króna og raforkusala Landsvirkjunar á árinu 2015 var sú mesta frá upphafi – 13,9 teravattstundir.

Sterkt sjóðstreymi gerði okkur kleift að vinna áfram að lækkun skulda, en hreinar skuldir hafa ekki verið lægri síðan 2005 og lækkuðu um rúma 26 milljarða króna á árinu. Síðan 2009 hafa þær samtals lækkað um ríflega 107 milljarða króna. Skuldsetning samstæðunnar, mæld á móti rekstrarhagnaði fyrir afskriftir, lækkar töluvert og eiginfjárhlutfall er nú hærra en það hefur verið frá upphafsárum fyrirtækisins.

Í kjölfar þessarar góðu afkomu síðustu ára komu þau ánægjulegu tíðindi í byrjun árs 2016 að lánshæfismat Landsvirkjunar var fært í fjárfestingarflokk. Þrátt fyrir krefjandi umhverfi á flestum hrávöru- og orkumörkuðum er eftirspurn eftir orku frá Landsvirkjun mikil frá fjölbreyttum iðnaði. Fyrirtækið vinnur, innan þess svigrúms sem það hefur, að því að svara þessari auknu eftirspurn, en nú standa yfir framkvæmdir við byggingu jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum og nú á vormánuðum munu hefjast framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar.“

Fréttatilkynning - ársreikningur 2015

Ársreikningur 2015

Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 128

Fréttasafn Prenta