Frétt

Ársreikningur 2017

15. febrúar 2018

Helstu atriði ársreiknings

  • Rekstrartekjur námu 483,1 milljón USD (50,2 ma.kr.) og hækka um 62,7 milljónir USD frá 2016 .1
  • EBITDA nam 345,6 milljónum USD (35,9 ma.kr.). EBITDA hlutfall er 71,5% af tekjum, en var 71,8% árið áður.
  • Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 153,4 milljónum USD (16,0 ma.kr.), en var 117,7 milljónir USD árið áður og hækkar því um 30,4% milli ára.
  • Hagnaður ársins var 108,0 milljónir USD (11,2 ma.kr.) en var 66,8 milljónir USD árið áður.
  • Nettó skuldir voru í árslok 2.042,6 milljónir USD (212,4 ma.kr.) og hækkuðu um 82,1 milljón USD á árinu 2017.
  • Handbært fé frá rekstri nam 277,9 milljónum USD (28,9 ma.kr.), 20,9% hækkun frá 2016.

Hörður Arnarson, forstjóri:

„Rekstur Landsvirkjunar gekk vel á árinu 2017. Tekjur voru meiri en nokkru sinni fyrr og slegin voru met í orkusölu og -vinnslu. Selt magn nam 14,3 teravattstundum, sem var yfir 5% aukning frá fyrra ári. Slegin voru vinnslumet í fimm aflstöðvum á árinu; Fljótsdalsstöð, Sigöldustöð, Búðarhálsstöð, Sultartangastöð og Steingrímsstöð.

Ytri aðstæður voru okkur einnig hagstæðar. Álverð, sem hefur áhrif á tekjur fyrirtækisins, hækkaði um 23% á milli ára. Rekstur flestra stærstu viðskiptavina okkar gekk vel á árinu og eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun var áfram mikil. Nú síðast bættist í raforkusölu fyrirtækisins í síðustu viku, þegar við gerðum nýjan samning við Advania Data Centers.

Öll þessi atriði leiddu til þess að hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði varð meiri en nokkru sinni fyrr. Þetta sterka sjóðstreymi hefur staðið undir miklum fjárfestingum undanfarin misseri, en við höfum verið með tvær virkjanir í byggingu í fyrsta skipti í sögu fyrirtækisins, auk þess sem Búðarhálsstöð var gangsett árið 2014. Fyrsti áfangi jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum var gangsettur í nóvembermánuði, en annar áfangi verður gangsettur á vormánuðum 2018. Framkvæmdum við stækkun Búrfellsvirkjunar fer nú senn að ljúka, en stefnt er að gangsetningu um mitt ár 2018. Samtals koma 1,6 teravattstundir frá þessum þremur nýju aflstöðvum, sem nemur um 12% aukningu á vinnslugetu.

Þessar framkvæmdir, sem leggja grunn að styrkari og öruggari tekjustofnum fyrir fyrirtækið, hafa tímabundið hægt á lækkun skulda. Á árinu 2018 lýkur þessu mikla framkvæmdatímabili og þá eru horfur á því að fyrirtækið verði enn stöðugra en áður og betur í stakk búið að takast á við verkefni framtíðarinnar.“

[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 104

Fréttatilkynning - ársreikningur 2017

Ársreikningur 2017

Kynning á uppgjöri 2017

Fréttasafn Prenta