Frétt

Ársskýrsla Landsvirkjunar 2014 er komin út

23. apríl 2015
Búrfellsstöð (Sumar)

Ársskýrsla Landsvirkjunar 2014 er komin út. Þetta er annað árið í röð sem ársskýrsla og umhverfisskýrsla Landsvirkjunar eru eingöngu gefnar út á rafrænu formi. Markmið okkar er að auðvelda almenningi og hagsmunaaðilum að kynna sér stefnu og starfsemi Landsvirkjunar, orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, áherslur í markaðsstarfi og viðskiptaþróun, rannsóknir á auðlindum og umhverfi og auka aðgengi að fjárhagsupplýsingum og árlegu uppgjöri þessa mikilvæga fyrirtækis í eigu íslensku þjóðarinnar.

Hægt er að kynna sér efni skýrslunnar á slóðinni www.landsvirkjun.is/arsskyrsla2014

Ársskýrslan er gefin út fyrir opinn ársfund á 50. afmælisári Landsvirkjunar, sem verður haldinn í Hörpu 5. maí nk.

 Meðal áhugaverðra nýjunga frá rafrænu ársskýrslu í fyrra eru:

Rafræn umhverfisskýrsla Landsvirkjunar 2014 kemur einnig út á næstu dögum.

Ársskýrslur og umhverfisskýrslur Landsvirkjunar voru í fyrsta sinn eingöngu gefnar út á rafrænu formi árið 2014. Sú nýbreytni gafst vel og hafa yfir 6.500 lesendur heimsótt ársskýrsluna og voru síðuflettingar yfir 41 þúsund talsins en áður var hún aðeins prentuð í nokkur hundruð eintökum. Ársskýrslan var tilnefnd til fjölda innlendra og erlendra verðlauna. Má þar nefna tilnefningar til Digital Communication Awards og European Excellence Awards fyrir rafræna miðlun ásamt viðurkenningu frá Awwwards, alþjóðlegum samtökum hönnuða, vefhönnuða og forritara. Ársskýrslan var kjörin besti fyrirtækjavefur ársins á Íslensku vefverðlaununum, hlaut Lúðurinn, íslensku auglýsingaverðlaunin, fyrir bestu vefauglýsingu og var tilnefnd sem vefur ársins hjá Nexpo.

Í ársskýrslu Landsvirkjunar 2014 kemur meðal annars fram að:

 • Landsvirkjun var stofnuð 1. júlí 1965 og byggir á traustum grunni eftir hálfa öld í rekstri. Árið 2014 var besta afkoman í sögu fyrirtækisins. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði var um 19 milljarða króna, jókst um 20% frá fyrra ári og hefur ekki verið meiri áður. Hagnaður ársins var 10,2 ma.kr. en árið áður var tap 5,0 ma.kr. Nettó skuldir halda áfram að lækka og hafa nú lækkað um rúma 80 milljarða króna frá árslokum 2009. Eiginfjárhlutfallið hækkaði og er nú 39,9%.

 • Eftirspurn eftir raforku á Íslandi fer vaxandi og framtíðarspár benda til að á næstu árum muni hún aukast enn frekar. Yfir 80% af þeirri orku sem Landsvirkjun vinnur er í raun flutt úr landi, t.d. í formi áls, kísiljárns og með þjónustu gagnavera sem knúin eru rafmagni. Hærra raforkuverð hefur jákvæð áhrif á íslenskt samfélag á sama máta og þegar aðrar verðmætar útflutningsvörur, eins og sjávarafurðir, hækka í verði. Arðgreiðslugeta Landsvirkjunar til þjóðarbúsins hækkar samhliða verðhækkunum á raforku.

 • Tveir nýir viðskiptasamningar voru undirritaðir við nýja viðskiptavini í kísilmálmiðnaði, United Silicon í Helguvík og PCC á Bakka. Áætlað er að fyrirtækin hefji rekstur á næstu árum.

 • Í lok árs 2014 sömdu Landsvirkjun og Rio Tinto Alcan á Íslandi um breytingu á samningsbundinni orkuafhendingu sem endurspeglar betur orkuþörf álversins í Straumsvík. Breytingar á samningnum eru báðum aðilum til hagsbóta. Landsvirkjun öðlast aukna möguleika á raforkusölu og á sama tíma er möguleikum Rio Tinto Alcan til áframhaldandi vaxtar viðhaldið.

 • Árið 2014 hófst með lágri vatnsstöðu í miðlunum Landsvirkjunar en jafn lág staða hefur ekki mælst í 15 ár. Sökum vatnsstöðu þurfti að takmarka afhendingu á orku til viðskiptavina í samræmi við samninga. Þrátt fyrir erfiða stöðu í vatnsbúskap gekk orkuvinnsla fyrirtækisins vel og vann Landsvirkjun 12.807 GWst af raforku á árinu.

 • Búðarhálsstöð, nýjasta vatnsaflsstöð landsins, var gangsett 7. mars 2014. Uppsett afl hennar er 95 MW og í fullum afköstum vinnur hún um 585 GWst af rafmagni á ári inn á orkukerfi landsmanna.

 • Þeistareykjavirkjun er sá virkjunarkostur sem hvað lengst er kominn í þróun hjá Landsvirkjun en á árinu fóru fram umfangsmiklar undirbúningsframkvæmdir. Við allan undirbúning hefur sjálfbær nýting verið höfð að leiðarljósi en fyrsta skrefið er að byggja þar 45 MW virkjun með mögulegri stækkun í 90 MW í öðrum áfanga.

 • Lífríki Þjórsár hefur verið vaktað með rannsóknum á fiskistofnum í ánni allt frá 1973. Einnig hefur fyrirtækið staðið fyrir seiðasleppingum og byggingu fiskistiga við fossinn Búða sem hefur tvöfaldað laxgengt svæði árinnar.

 • Landsvirkjun vinnur í samstarfi við innlenda og erlenda fagaðila að því að meta tæknilegan fýsileika og hagkvæmni raforkusæstrengs milli Íslands og Bretlands og eru allir þættir verksins kannaðir á ítarlegan og faglegan hátt. Sæstrengur gæfi Íslendingum tækifæri til að nýta orkulindir landsins betur og auka þar með afraksturinn af þeim fyrir þjóðarbúið. Rannsóknarskýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá árinu 2013 benti þannig á að sæstrengur gæti gert beinan útflutning á raforku mögulegan og skapað um leið umtalsverðan fjárhagslegan ávinning fyrir íslenskt samfélag. Frekar þarf að rannsaka þjóðhagsleg og umhverfisleg áhrif framkvæmdarinnar og tryggja að opinská umræða eigi sér stað á Íslandi um niðurstöðurnar.

 • Starfsánægja hjá Landsvirkjun hækkar milli ára og mælist nú 4,29 af 5 mögulegum.

 • Yfir 20 þúsund gestir og erlendir ferðamenn kynntu sér raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum í gestastofum Landsvirkjunar í Búrfellsstöð, Fjótsdalsstöð og Kröflustöð, fengu leiðsögn við vindmyllur fyrirtækisins fyrir ofan Búrfell eða við Kárahnjúkastíflu.

Fréttasafn Prenta