Frétt

Ársskýrsla Landsvirkjunar tilnefnd til virtra alþjóðlegra verðlauna

20. ágúst 2014

Rafræn ársskýrsla Landsvirkjunar hefur verið tilnefnd til verðlauna í hinni alþjóðlegu og virtu Digital Communication Awards keppni, í flokki rafrænna ársskýrslna. Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt fyrirtæki er tilnefnt til verðlaunanna. Ársskýrsla Landsvirkjunar er tilnefnd ásamt ársskýrslum fjögurra stórfyrirtækja, en þau eru efnavöru og málningaframleiðandinn Akzo Nobel (með 50.000 starfsmenn í 80 löndum), bifreiðaframleiðandinn Fiat (framleiðandi Ferrari, Maserati, Alfa Romeo og Fiat), breska olíu- og gasfélagið BG Group (starfandi í 25 löndum) og svissneski bankinn Basellandschaftliche Kantonalbank. Digital Communication Awards er alþjóðleg keppni sem verðlaunar það besta úr heimi rafrænnar miðlunar og samskipta. Verðlaun eru veitt í 38 flokkum, allt frá verkefnum á samfélagsmiðlum til stærri rafrænna útgáfna. Leitast er við að skoða alla þætti rafrænna miðlunarverkefna og verðlauna þau sem skarað hafa fram úr í hverjum flokki. Keppnin fer nú fram í fjórða sinn og fjölgar innsendum verkefnum ár frá ári sem voru nær 600. Í dómnefnd sitja yfir 30 sérfræðingar og háskólamenn, þar af 13 prófessorar og kennarar í almannatengslum og samskiptum við virta háskóla í Evrópu.

,,Tilnefningin er mikil viðurkenning fyrir Landsvirkjun og viðleitni okkar til að að auka skilning og sýnileika á stefnu og starfsemi fyrirtækisins með auknu gegnsæi í rekstrinum, opnum samskiptum og virkri upplýsingamiðlun til hagsmunaaðila og almennings,” segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.

Síðasta ársskýrsla Landsvirkjunar var einungis gefin út á rafrænu formi en það er í fyrsta sinn sem sá háttur er hafður á. Með þessu vill Landsvirkjun stuðla að opnum og gagnsæjum samskiptum og huga um leið að umhverfinu með minni pappírsnotkun. Markmiðið er að tryggja betra aðgengi að árlegu uppgjöri fyrirtækisins og gera áhugaverðara og auðveldara fyrir almenning og hagsmunaaðila að kynna sér starfsemi þess. Ársskýrslan var unnin í samstarfi við Skapalón og Jónsson & Le'macks.

Verðlaunaafhending Digital Communication Awards fer fram í Berlín 19. september nk.

Ársskýrslan 2013

Fréttasafn Prenta