Frétt

Áskoranir og tækifæri í ferðaþjónustu vegna fyrirhugaðrar Þeistareykjavirkjunar

15. janúar 2015

Þann 13. janúar var haldinn opinn samráðsfundur um áskoranir og tækifæri í ferðaþjónustu vegna uppbyggingar Þeistareykjavirkjunar. Fundurinn var samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Ferðamálasamtaka Þingeyjarsveitar, Húsavíkurstofu og Mývatnsstofu en fundarstjórn var á hendi fulltrúa frá Capacent.

Fundurinn var vettvangur fyrir hagsmunaaðila til að taka stöðuna, eiga samskipti og hlusta hver á annan. Í kjölfar erinda frá fulltrúum Þingeyjarsveitar, Landsvirkjunar og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík var unnið í vinnuhópum. Um 40 þátttakendur mættu á fundinn sem tókst vel.

Þátttakendur ræddu þau tækifæri sem felast í því að aðgengi að Þeistareykjasvæðinu er orðið mun betra en áður var með nýjum virkjunarvegi frá Húsavík og þær áskoranir sem því fylgja í ljósi þess að náttúra svæðisins er einstök.

Landsvirkjun hefur unnið að uppbyggingu jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum til margra ára en rannsóknir gefa til kynna að svæðið bjóði upp á mikla möguleika. Umfangsmiklar undirbúningsframkvæmdir áttu sér stað í sumar og hefur verkefnið verið kynnt opinberlega við fjölda tækifæra. 

Fréttasafn Prenta