Frétt

Aukið álag í óveðri en engar bilanir hjá Landsvirkjun

13. desember 2019

Forstjóri Landsvirkjunar: „Staðfestir brýna þörf á öflugu flutningskerfi.“

Engar bilanir urðu hjá Landsvirkjun á meðan óveðrið gekk yfir landið á dögunum, en í kjölfarið urðu þó ístruflanir við Laxárstöðvar. Nokkurt álag var á starfsfólk vegna truflana sem urðu á flutningi raforku frá aflstöðvum okkar.

Eftir mikla upplýsingagjöf og aðvaranir frá Veðurstofunni, Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og Vegagerðinni í aðdraganda atburðarins gátum við virkjað okkar viðbragðsáætlanir í tæka tíð og gert ráðstafanir sem meðal annars fólust í að tryggja viðveru í aflstöðvum. Starfsfólk okkar var búið undir það sem í vændum var og fór yfir viðbragðsáætlanir og önnur skjöl sem tengjast viðbrögðum við vá.

Starfsemin gekk heilt yfir vel við þessar erfiðu aðstæður, en nauðsynlegt reyndist að auka viðveru í aflstöðvum á meðan álagið var hvað mest. Öryggi starfsfólks var ávallt í fyrirrúmi í öllum aðgerðum.

Fjarskipti Landsvirkjunar voru að mestu leyti í góðu lagi en þau fara um fjarskiptakerfi Orkufjarskipta hf. sem er í jafnri eigu Landsnets og Landsvirkjunar. Truflanir urðu þó á TETRA samskiptum við Blöndustöð.

Brýn þörf fyrir öflugt flutningskerfi um allt land

Hörður Arnarson, forstjóri, var í viðtölum við mbl.is og RÚV í kvöld:

„Fyrir það fyrsta vil ég hrósa bæði framgöngu Veðurstofunnar og öllum í stjórnstöð Almannavarna. Upplýsingar þaðan gerðu okkar kleift að virkja okkar viðbragðsáætlun í tæka tíð og gera ráðstafanir sem tryggðu tiltölulega truflanalausan rekstur hjá okkur,“ segir Hörður í samtali við mbl.is. Það sem stendur hins vegar upp úr að hans mati er hversu mikil þörf er fyrir öflugt flutningskerfi raforku í landinu. Þá ekki síst það að landsbyggðin þurfi að búa við sambærilegt orkuöryggi og suðvesturhornið.

„Það er óásættanlegt ástand sem kom upp á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinni. Veikleikar í flutningskerfinu stafa af því að nauðsynlegri uppbyggingu hefur ekki verið sinnt þó þarfir samfélagsins hafi breyst mjög mikið. Frá því að byggðalínan var reist fyrir fjörutíu árum síðan eru stórir hlutar landsins, sérstaklega á Norðurlandi, þar sem lítið hefur verið gert þrátt fyrir að ítrekað hafi verið bent á þörfina,“ segir Hörður. Það sé allra hagur að til staðar sé öflugt flutningskerfi í landinu. 

Viðtal við Hörð á mbl.is.

Viðtal við Hörð á RÚV.

Fréttasafn Prenta