Frétt

Aukin orkunýting á rekstrarsvæði Blönduvirkjunar athuguð

9. janúar 2013

Landsvirkjun hefur til athugunar að nýta 68 metra fall á núverandi veituleið Blönduvirkjunar, frá Blöndulóni að Gilsárlóni, sem í dag rennur um veituskurði á um 20 kílómetra kafla. Þessar athuganir eru liður í áætlunum fyrirtækisins að bæta nýtingu á núverandi aflsvæðum Landsvirkjunar og hafa meðal annars verið kynntar í ársskýrslu Landsvirkjunar 2011 og á haustfundi fyrirtækisins 2012.

Áætlanir gera ráð fyrir að reisa allt að þrjár smáar virkjanir sem hefðu heildarorkugetu um 170 GW stundir á ári, eða allt að 32 MW. Verkið er á frumhönnunarstigi.

Miðað er að því að mat á umhverfisáhrifum fari fram sumarið 2013 og að matið liggi fyrir sama haust. Verði niðurstöður mats á umhverfisáhrifum jákvætt, sem og hagkvæmniáætlanir komi vel út, verður í framhaldi sótt um leyfi til frekari framkvæmda.

Drög tillögu að matsáætlun

Framkvæmdin er matsskyld samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 (sbr. 5 gr. og 2. tl. 1. viðauka).

Mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar er unnið af Verkís fyrir Landsvirkjun.  Í drögum að tillögu að matsáætlun er fyrirhugaðri framkvæmd og framkvæmdasvæði lýst.  Fjallað er um samræmi við gildandi skipulag og greint frá helstu áhrifaþáttum og á hvaða umhverfisþætti áhersla verður lögð á í frummatsskýrslu.  Fyrirliggjandi rannsóknum og gögnum er varða umhverfis- og áhrifaþætti framkvæmdar er lýst og greint er frá fyrirhuguðum rannsóknum.  Að lokum er farið yfir hvernig staðið verður að samráði og kynningu mats á umhverfisáhrifum virkjana á veituleið Blönduvirkjunar.

Drög tillögu að matsáætlun virkjana á veituleið Blönduvirkjunar má nálgast hér.

Almenningur er hvattur til að kynna sér drögin og og gera athugasemdir.  Athugasemdir sendist á netfangið: umhverfismal@verkis.is

eða í pósti til:

Verkís hf.
b.t. Hugrúnar Gunnarsdóttur
Ármúla 4
108 Reykjavík

Athugasemdum skal skila eigi síðar en 22. janúar 2013.

 

ATH umsagnarfrestur er nú útrunninn og verið er að fara yfir þær athugasemdir sem bárust. 

Fréttasafn Prenta