Frétt

Bætt nýting raforkukerfisins í kjölfar nýs samningsfyrirkomulags á heildsölumarkaði

8. september 2017

Landsvirkjun hefur á síðustu árum unnið að því að breyta samningsformum á heildsölumarkaði með það að augnamiði að nýta sem best þær auðlindir sem fyrirtækinu er treyst fyrir.  Þetta var m.a. gert með því að minnka aflskuldbindingu sölufyrirtækja og auka sölu á skammtímarafmagni, samkvæmt nýju samningsfyrirkomulagi sem tók gildi á heildsölumarkaði um síðustu áramót. Vegna þessara breytinga jókst skammtímasala umtalsvert á fyrri helmingi ársins miðað við fyrra ár og hefur aflsparnaður  verið allt að 70 MW í einstökum mánuðum. Mikill vöxtur hefur verið í eftirspurn eftir heildsölurafmagni frá Landsvirkjun sl. ár og hluti af því rafmagni er seldur áfram til gagnavera og annarra minni stórnotenda.

Samkvæmt eldra fyrirkomulagi heildsölusamninga stóð til að listaverð myndi hækka um 3,8% að raunvirði milli ára. Landsvirkjun hefur nú ákveðið að draga úr þeim hækkunum og er búist við að heildsöluverð muni hækka um 2,2% að meðaltali á verðlagi ársins 2017. Þrátt fyrir þessa hækkun er meðalverð viðskiptavina lægra en það var á árunum 2015 og 2016 á föstu verðlagi sbr. meðfylgjandi mynd.

Enn svigrúm til bættrar nýtingar

Landsvirkjun telur þó að enn sé svigrúm fyrir heildsöluviðskiptavini til að stýra innkaupum sínum á rafmagni með aukinni hagkvæmni í innkaupum. Landsvirkjun vill með þessum breytingum endurspegla betur kostnað við framleiðslu á mismunandi vörum inn á heildsölumarkað og á sama tíma fjölga vöruflokkum til hagkvæmni fyrir viðskiptavini og raforkukerfið í heild sinni.

Landsvirkjun telur nauðsynlegt að nýta orkuauðlindirnar betur og því hækkar verð á sumarrafmagni í samningum ársins 2018 en verð vetrarrafmagns lækkar á móti, þannig að meðalverðhækkun viðskiptavina verður hófleg og í samræmi við það sem fram kemur að hér að ofan. Þessi verðbreyting endurspeglar það að á síðustu árum hefur miðlunarrými aukist verulega í  virkjanakerfi Landsvirkjunar og hægt er að miðla meira vatni frá sumri yfir í raforkuvinnslu að vetri. 

Fréttasafn Prenta