Frétt

Borun nýrrar vinnsluholu til að viðhalda 60 MW vinnslu Kröflustöðvar

4. ágúst 2016

Hafnar eru framkvæmdir við borun nýrrar vinnsluholu til að viðhalda 60 MW vinnslu Kröflustöðvar.

Við rekstur jarðvarmavirkjana er eðlilegt að afl í háhitaholum dvíni að jafnaði um 1-2% á ári, m.a. vegna lækkunar í þrýstingi og útfellinga í jarðlögum nærri holunum. Síðast var boruð vinnsluhola á Kröflusvæðinu árið 2009 og er því aftur kominn tími á viðhaldsborun.

Borun hófst 21. júlí og gera áætlanir ráð fyrir að verkinu ljúki seinnipart ágústmánaðar. Holan verður stefnuboruð til norðausturs niður á um 1700 m dýpi. Framkvæmd verksins er á höndum Jarðborana hf. og nota þeir jarðborinn Sleipni til að bora holuna.

Holan er boruð á plani í Leirbotnum í botni Hlíðardals, þar sem m.a. er hola 15, en sú hola var boruð fyrir 36 árum af jarðbornum Jötni.

Fréttasafn Prenta