Frétt

Brugðist við áhyggjum af áhrifum virkjana á fiskistofna

14. febrúar 2013
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, ritar grein í Fréttablaðið 29. júní 2013.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, ritaði grein í Morgunblaðinu 13. febrúar 2013 þar sem hann fjallar um virkjanir í neðanverðri Þjórsá og mögulegar aðgerðir til varnar fiskistofnum í ánni. Landsvirkjun hefur meðal annars lýst sig reiðubúna til að byggja seiðafleytu við Hvammsvirkjun og afla reynslu af henni áður en ráðist yrði í byggingu Urriðafossvirkjunar.

 

Brugðist við áhyggjum af áhrifum virkjana á fiskistofna
"Í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað í tengslum við gerð rammaáætlunar hefur komið fram gagnrýni á áætlanir Landsvirkjunar varðandi fyrirhugaðar þrjár virkjanir í neðanverðri Þjórsá. Þar er um að ræða Hvammsvirkjun, Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun og hefur gagnrýnin einkum beinst að mögulegum áhrifum þessara virkjana á laxfiska. Í umræðunni er gjarnan ranglega fjallað um þessar virkjanir sem eina framkvæmd og þarf það ekki að koma á óvart því að í áætlunum Landsvirkjunar frá 2007 var miðað við að framkvæmdatími þessara virkjana skaraðist þannig að þegar framkvæmdir væru komnar vel á veg við Hvammsvirkjun myndu framkvæmdir við Holtavirkjun hefjast og síðan hæfust framkvæmdir við Urriðafossvirkjun skömmu síðar.

Í rammaáætlun er lagt sjálfstætt mat á hvern þessara þriggja kosta sem er eðlilegt því að áhrif þessara virkjana á lífríkið eru með mismunandi hætti. Náttúruleg búsvæði laxa eru á áhrifasvæði Urriðafossvirkjunar, en ekki ofan við fyrirhugaða Hvammsvirkjun og Holtavirkjun þótt þar hafi lax numið land í seinni tíð vegna tilkomu laxastiga við Búðafoss árið 1991. Talið er að 10-15% af laxastofninum í ánni nýti sér nú búsvæðin ofan við Búðafoss, það er á áhrifasvæðum Hvammsvirkjunar og Holtavirkjunar, og ef einungis Hvammsvirkjun er talin er þessi tala 5-10% af heildarstofninum.

Uppbyggileg gagnrýni almennings og frjálsra félagasamtaka á fyrirhugaðar framkvæmdir fyrirtækja á borð við Landsvirkjun veitir mikilvægt aðhald og leiðir gjarnan til betri mannvirkja þegar upp er staðið. Til að bregðast við áhyggjum og ábendingum varðandi afkomu laxfiska í neðanverðri Þjórsá hefur Landsvirkjun lýst sig reiðubúna til að byggja sambærilega seiðafleytu við Hvammsvirkjun og miðað hefur verið við að byggð verði við Urriðafossvirkjun, og enn fremur afla reynslu af henni áður en ráðist yrði í byggingu Urriðafossvirkjunar (sbr. Umsögn Landsvirkjunar um tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða dagsett 23. október 2012). Slík seiðafleyta mun fleyta yfirborðsvatni framhjá vélum virkjana og gera seiðum þannig kleift að ganga til sjávar án þess að fara í gegnum vélar. Uppbygging virkjananna í neðanverði Þjórsá yrði því mun varfærnari en áður hefur verið miðað við.

Í grein Orra Vigfússonar um virkjanir í neðanverðri Þjórsá sem birtist í Morgunblaðinu hinn 24. Janúar síðastliðinn segir „að rennslisbreytingar, búsvæðaröskun og seiðadauði myndu leiða til 80-90% affalla miðað við að ekki væri virkjað“. Í þessari fullyrðingu er ekki tekið tillit til þeirra tillagna sem Landsvirkjun hefur kynnt og horft framhjá þeim möguleika að hægt er að fara varlega, byrja á efstu virkjuninni, Hvammsvirkjun sem í dag getur haft áhrif á 5-10% laxastofnsins, og meta reynsluna af henni áður en lengra yrði haldið. Mikilvægi þessarar varfærnu uppbyggingar er undirstrikað í grein Sigurðar Guðjónssonar forstjóra Veiðimálastofnunar sem birtist í Fréttablaðinu 31. mars 2012 en þar segir: „Landsvirkjun hyggst fyrst reisa efstu virkjunina í Þjórsá, Hvammsvirkjun, og síðan halda niður ána og síðast yrði Urriðafossvirkjun reist. Það gefur því ágæta möguleika á að prófa lausnir til að koma fiski lifandi upp og niður fyrir virkjun í Hvammsvirkjun og láta þær sanna gildi sitt. Að því fengnu ætti áhættan að vera minni þegar kemur að byggingu Urriðafossvirkjunar. Ef illa tækist til með Hvammsvirkjun er hægt að bíða með frekari virkjanir í Þjórsá uns viðunandi árangur næst í Hvammsvirkjun.”

Í ljósi þess hve mikilvægt er að vel takist til varðandi virkjanir í neðanverðri Þjórsá ef af byggingu þeirra verður fagnar Landsvirkjun allri málefnalegri umræðu um þetta mál. Með samþykkt rammaáætlunar voru þessar virkjanir settar í biðflokk og mun Landsvirkjun leggja sig fram um að afla þeirra viðbótarupplýsinga sem óskað verður eftir. Landsvirkjun hvetur alla hagsmunaaðila og áhugasama einstaklinga til að kynna sér málið og mynda sér sjálfstæða skoðun út frá þeim tillögum, upplýsingum og rannsóknum sem liggja fyrir og birtar eru meðal annars á vefsíðu Landsvirkjunar."

Hægt er að lesa greinina í pdf útgáfu hér: Brugðist við áhyggjum af áhrifum virkjana á fiskistofna

Hægt er að kynna sér rannsóknir á vegum Landsvirkjunar hér: Fiskistofnar í Þjórsá

Fréttasafn Prenta