Frétt

Búðarhálsstöð gangsett

7. mars 2014

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, gangsettu vélar Búðarhálsstöðvar, að viðstöddu fjölmenni.

Búðarhálsstöð, nýjasta aflstöð Íslendinga, var gangsett af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra, og Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, við formlega gangsetningarathöfn í dag 7. mars 2014. Búðarhálsstöð, sem nefnd er svo eftir að virkjunarframkvæmdum lýkur og rekstur hefst, verður nýjasta aflstöð Landsvirkjunar og þar með okkar Íslendinga.

Búðarhálsstöð er staðsett á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og verður rekin samhliða öðrum aflstöðvum Landsvirkjunar á svæðinu. Uppsett afl hennar er 95 MW og hún framleiðir um 585 GWst af rafmagni á ári inn á orkukerfi landsmanna. Hún er sjöunda stærsta aflstöð Landsvirkjunar.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar: „Framkvæmdirnar við Búðarhálsvirkjun hafa verið til fyrirmyndar í alla staði og vert að geta þess hversu mikil eining hefur verið um framkvæmdina. Við hjá Landsvirkjun erum ánægð og hreykin á þessari stundu. Búðarhálsstöð verður 16. aflstöð Landsvirkjunar sem vinnur hreina og endurnýjanlega orku inn á raforkukerfi landsmanna og skapa verðmæti um ókomin ár fyrir eiganda okkar, íslenska þjóð.“

Búðarhálsstöð markar í raun nokkur tímamót í uppbyggingu virkjana á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu en með henni er virkjað áður ónýtt 40 metra fall vatns í Tungnaá úr frávatni Hrauneyjafossvirkjunar að Sultartangalóni. Þar með er allt fall vatnsins virkjað sem rennur frá Þórisvatni og alveg niður fyrir Búrfell. Fallið í heild sinni er 450 metrar.

Lón Búðarhálsstöðvar heitir Sporðöldulón og er myndað með tveimur stíflum. Önnur þverar farveg Köldukvíslar og hin frávatn Hrauneyjafossstöðvar. Frá Sporðöldulóni liggja 4 kílómetra löng jarðgöng sem leiða vatnið undir Búðarháls að inntaki stöðvarinnar.

Um 2.000.000 vinnustunda

Þegar mest lét á framkvæmdatímanum störfuðu hátt í 400 manns við byggingu Búðarhálsvirkjunar. Um tvær milljónir vinnustunda fóru í byggingu Búðarhálsvirkjunar, eða um 900 ársverk oft við mjög krefjandi og erfiðar aðstæður.  Við byggingu Búðarhálsvirkjunar voru öryggismál í forgrunni hjá Landsvirkjun og öllum verktökum á svæðinu. Stefnan var sú að hafa vinnustaðinn án slysa með sérstakri áherslu á að koma í veg fyrir alvarleg slys. Mikil áhersla var lögð á öryggismál allan verktímann og árangurinn var góður. Engin alvarleg slys áttu sér stað og örfá minniháttar.

Forsagan og framkvæmdir

Meira en 100 ár eru síðan farið var að huga að virkjunum á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu.  Þá voru strax komnar fram hugmyndir að virkjun við Hrauneyjar og Búrfell ásamt áætlun um virkjanir við neðanverða Þjórsá. 

Fyrstu hugmyndir að virkjun við Búðarháls komu fram um 1960 og var þá gert ráð fyrir bæði stöðvarhúsi og stíflu austan við hálsinn.  Á þessum tíma var virkjunarkosturinn yfirleitt nefndur virkjun Tungnaár við Langöldu.  Sú hugmynd  að leiða Tungnaá í gegnum hálsinn í jarðgöngum kom fram hjá Orkustofnun 1971 og var sú útfærsla ekki ólík því sem varð raunin.

Stjórn Landsvirkjunar tók ákvörðun um byggingu Búðarhálsvirkjunar á árinu 2001 en það ár heimilaði forsætisráðuneytið Landsvirkjun að nýta vatnsréttindi, námur og önnur jarðefni til framkvæmda á svæðinu.  Iðnaðarráðherra gaf út virkjunarleyfi fyrir Búðarhálsvirkjun í ágúst 2001 og framkvæmdaleyfi fyrir virkjunina voru veitt af sveitastjórnum Ásahrepps, Djúpárhrepps og Holta- og Landsveitar í ágúst og september sama ár. Fyrstu framkvæmdir hófust undir lok árs 2001 en var síðar slegið á frest.

Til stóð að hefja framkvæmdir aftur á árinu 2009 en upphaf þeirra dróst vegna óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Fjármálamarkaðir voru erfiðir og fjármögnun tafði því upphaf framkvæmda um ár. Á vormánuðum ársins 2010 var ákveðið að hefja að nýju framkvæmdir og voru fyrstu útboðin auglýst í júní það ár.  Fjármögnun tókst vel og vakti athygli að á sama tíma og lausafjárvandræði var á fjármálamörkuðum í Evrópu tókst Landsvirkjun að tryggja fjármögnun til mjög langs tíma.

Nú eru um það bil fjögur ár frá því fyrstu útboðin voru auglýst og eftir mikla og krefjandi vinnu hefur virkjunin verið formlega tekin í notkun.  Framkvæmdum á verkstað lauk að mestu nú fyrir síðustu áramót.  Vél 1 fór í 28 daga reynslurekstur nú í byrjun janúar og vél 2 í byrjun febrúar.

Verkfræðihönnun Búðarhálsvirkjunar var öll unnin af íslenskum verkfræðistofum.  Verkfræðistofan Efla hf. hannaði öll byggingarmannvirki ásamt því að hafa yfirumsjón með annarri hönnun. Verkfræðistofan Mannvit hannaði lokur og fallpípur og verkfræðistofan Verkís vélbúnað og húskerfi. Arkitektar Búðarhálsvirkjunar eru arkitektarnir Ormar Þór Guðmundsson, Garðar Guðnason og Sigurður Gústafsson og starfa þeir allir hjá arkitektastofunni OG. Eftirlit á staðnum var í höndum starfsmanna Landsvirkjunar ásamt starfsmönnum frá verkfræðistofunni Hnit hf.

Við Búðarhálsvirkjun voru byggðar tvær jarðvegsstíflur austan við Búðarháls skammt ofan við ármót Köldukvíslar og Tungnaár. Önnur stíflan þverar farveg Köldukvíslar og hin frávatn Hrauneyjafossstöðvar. Stíflurnar eru báðar um 25 metra háar þar sem þær eru hæstar og samanlögð lengd þeirra um 1.400 metrar. Með stíflunum myndast inntakslón Búðarhálsvirkjunar, Sporðöldulón. Stærð þess er um 7 km2 að flatarmáli. Um 4 km löng aðrennslisgögn leiða vatnið frá Sporðöldulóni undir Búðarháls að jöfnunarþró og inntaki vestan við hálsinn. Tvær fallpípur úr stáli flytja vatnið frá inntaki að hverflum stöðvarinnar. Stöðvarhúsið er steypt og grafið inn í vesturhlíð Búðarháls. Vélasamstæðurnar eru tvær og er hvor þeirra tæplega 48 MW.

Framkvæmdir við Búðarhálsvirkjun hófust upphaflega undir lok árs 2001. Fyrstu framkvæmdir fólust í því að byggja brú yfir Tungnaá og leggja vegi yfir Búðarháls að framkvæmdasvæðum stöðvarhúss og Sporðöldustíflu. Einnig var að hluta grafið fyrir sveifluþró. Sumrin 2008 og 2009 var unnið að frekari undirbúningi, rafstrengur lagður frá Hrauneyjafossvirkjun að fyrirhugðum framkvæmdasvæðum og vinnubúðir settar upp.

Fyrstu útboðin voru auglýst árið 2010. Í framhaldi  var samið við Ístak hf. um gerð jarðganga, stíflu, stöðvarhúss og annarra mannvirkja. Í desember 2010 var samið við þýska fyrirtækið Voith Hydro um véla- og rafbúnað fyrir stöðina. Útboðum á öðrum hlutum verkefnisins lauk á árinu 2012. Þá var verksamingur undirritaður í september 2011 við Íslenska aðalverktaka um smíði og uppsetningu á fallpípum. Í janúar 2012 var gerður verksamningur við franska fyrirtækið Alstom Hydro um smíði og uppsetningu á lokum og í apríl 2012 var samið við portúgalska fyrirtækið Efacec um framleiðslu á vélaspennum. Allir verksamningar voru undirritaðir í framhaldi af útboðum á evrópska efnahagssvæðinu. Iljin frá Suður Kóreu, sá um framleiðslu á aflstrengjum frá stöðinni í tengivirki Landsnets. Fjölmargir aðrir undirverktakar, bæði innlendir og erlendir, komu einnig að verkefninu. 

Stærsti einstaki verkþátturinn í byggingu Búðarhálsvirkjunar var gerð aðrennslisganga undir Búðarháls. Aðrennslisgöngin liggja neðanjarðar, eru um 4 km að lengd og með um 140 m2 þverskurðarflöt. Göngin voru grafin frá báðum endum en vegna hæðar þeirrar þurfti að grafa þau í tveimur áföngum. Greftrinum lauk í september á þessu ári og voru göngin vatnsfyllt í nóvember. Jarðfræðilegar aðstæður í Búðarhálsi reyndust heldur erfiðari en gert var ráð fyrir og voru verklok í gangagerðinni rúmlega 60 dögum á eftir áætlun.

Framkvæmdir við Sporðöldustíflu hófust sumarið 2011 með gerð hjáveitu fyrir Köldukvísl og hreinsun og greftri úr stíflubotni. Sumarið 2012 hófst stíflufylling sem lauk nú í haust. Fylling í Sporðöldulón hófst í nóvember og var lokið á þremur vikum.

Lokið var við uppsteypu á stöðvarhúsi og inntaki á árinu 2012 og á árinu 2013 var unnið að innanhússfrágangi og uppsetningu margskonar húskerfa. Í lok ársins 2013 var vinnu við stöðvarhús og inntak lokið og mannvirkin að fullu frágengin.

Gert er ráð fyrir að vinnubúðir og verkbú verktaka verði flutt af svæðinu á næstu misserum. Næsta sumar verður unnið að frágangi og landmótun umhverfis helstu mannvirki stöðvarinnar.

Sjá nánar:

Búðarhálsstöð

twitter.com/landsvirkjun

Fréttasafn Prenta