Hálslón ofan Fjótsdalsstöðvar á yfirfall

19.08.2020Umhverfi

Búist er við að Hálslón ofan Fjótsdalsstöðvar fyllist í lok vikunnar. Lónið fer þá á yfirfall, sem þýðir að Jökulsá á Dal neðan virkjunar verður vatnsmikil, straumhörð og gruggug, þar á meðal í Stuðlagili.

Búist er við að Hálslón ofan Fjótsdalsstöðvar fyllist í lok vikunnar. Lónið fer þá á yfirfall, sem þýðir að Jökulsá á Dal neðan virkjunar verður vatnsmikil, straumhörð og gruggug, þar á meðal í Stuðlagili.

Hálslón fyllist síðsumars flest ár. Þá er vatni veitt um yfirfall við vestari enda Kárahnjúkastíflu niður að gljúfurbarminum og þaðan steypist það í 90–100 m háum fossi, Hverfanda, niður í Hafrahvammagljúfur. Það er til marks um gríðarlegt afl fossins að hann getur orðið vatnsmeiri en Dettifoss. Ef marka má síðustu ár verður lónið á yfirfalli fram í október/nóvember.

Stuðlagil var lítt þekkt og kom ekki almennilega í ljós fyrr en eftir að virkjunin var tekin í notkun og vatnsrennsli Jöklu minnkaði. Gilið hefur verið ákaflega vinsæll áningastaður ferðamanna í sumar og verður eflaust áfram, en á næstunni breytir það um ásýnd, eftir því sem vex í gruggugri ánni. Hið sama gildir um laxveiði í ánni, sem varð möguleg eftir virkjunina; hún stöðvast þegar áin verður gruggug. Hægt er að fylgjast með vatnshæð Hálslóns hér.