Frétt

Dagur ferskra vinda laugardaginn 15. júní

14. júní 2013
Landsvirkjun reisti tvær vindmyllur ofan við Búrfell í lok árs 2012 sem vinna nú raforku inn á kerfi Landsnets

Alþjóðadagur vindsins er haldinn hátíðlegur um heim allan á morgun laugardaginn 15. júní. Markmið dagsins, sem er skipulagður af Alþjóðlegu vindorkusamtökunum, er að hvetja fólk til að kynnast vindorku og möguleikum hennar til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í heiminum.

Í tilefni dagsins tekur Landsvirkjun á móti gestum við rannsóknarvindmyllur fyrirtækisins á „Hafinu“ fyrir norðan Búrfell við þjóðveg 32. Starfsfólk Landsvirkjunar mun taka á móti gestum við vindmyllurnar milli klukkan 12.00-16.00 þennan laugardag.

Einnig verður opið í gestastofum Landsvirkjunar í Búrfellsstöð, Kröflustöð og í Végarði við Fljótsdalstöð en upplýsingar um opnunartíma og staðsetningu eru á vef Landsvirkjunar.
 

Nánar um alþjóðadag vindsins 

Um heim allan verða haldnir viðburðir þar sem almenningi er gert kleift að heimsækja vindorkugarða, hitta sérfræðinga og fræðast um vindorku. Dagurinn hefur verið haldinn frá árinu 2007 en í fyrra voru skipulagðir 230 viðburðir í 40 löndum um allan heim.

Alþjóðlegu vindorkusamtökin vöktu nýlega athygli á því að Ísland er hundraðasta landið í heiminum til að virkja vind til almennrar raforkuvinnslu en notkun vindorku á heimsvísu hefur aukist mikið á undanförnum árum. Í árslok 2012 komu 3% af allri raforku heimsins frá vindmyllum. Alþjóðlegu vindorkusamtökin spá því að uppsett afl frá vindmyllum muni tvöfaldast í heiminum fyrir lok árs 2016 og að innan átta ára gæti uppsett vindafl orðið um ein milljón MW. Nánar má kynna sér daginn á eftirfarandi vefslóð: www.globalwindday.org

 

Fréttasafn Prenta