Frétt

Dró úr innrennsli eftir hagstætt vor

2. júlí 2019

Vorleysingar á vatnasviðum aflstöðva Landsvirkjunar hófust snemma í ár. Seinni hluta aprílmánaðar hækkaði talsvert í miðlunarlónum en frá byrjun maí hefur verið þurrt og fremur kalt á hálendinu og innrennsli því undir meðallagi. Frá þeim tíma hafa miðlunarlón staðið í stað þar til í byrjun síðustu viku er merkja mátti aukningu í innrennsli. 

Innrennsli í miðlunarlón frá byrjun júlí byggja að miklu leyti á leysingu af jöklum og í eðlilegu árferði má búast við að lónin fyllist í haust. Landsvirkjun mun fylgjast grannt með rennsli og tíðarfari það sem eftir lifir sumars en of snemmt er að segja til um aðstæður í rekstri orkuvinnslunnar næsta vetur.

Hægt er að fylgjast með vatnshæð lóna daglega á vöktunarsíðu vefs Landsvirkjunar: www.landsvirkjun.is/rannsoknirogthroun/voktun

Fréttasafn Prenta