Frétt

Ekki ríkisaðstoð í ríkisábyrgð á afleiðusamningum

26. september 2018
Höfuðstöðvar Landsvirkjunar

Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, hefur lokið rannsókn sinni og komist að þeirri niðurstöðu að ríkisábyrgð á afleiðusamningum Landsvirkjunar feli ekki í sér ríkisaðstoð.

Í frétt ESA segir: „Landsvirkjun er stærsti raforkuframleiðandi á Íslandi og einn stærsti framleiðandi endurnýjanlegrar raforku í Evrópu. Í samningum um stóriðju er fyrirtækið í samkeppni við aðra framleiðendur í Evrópu. Til að verjast gengis- og vaxtaáhættu í skuldasafni sínu gerði Landsvirkjun ýmiss konar afleiðusamninga sem íslenska ríkið gekk í ábyrgð fyrir.

ESA hóf rannsókn á ríkisábyrgðunum árið 2017 með það að markmiði að kanna hvort þær væru í samræmi við EES-reglur um ríkisstyrki. Hún hefur nú leitt í ljós að ábyrgðirnar á afleiðusamningum Landsvirkjunar leiddu ekki til efnahagslegs ávinnings fyrir fyrirtækið og er málinu því lokið að hálfu ESA.”

Afleiðusamningum Landsvirkjunar er ætlað að verjast gengis- og vaxtaáhættu og var íslenska ríkið lengi vel í ábyrgð fyrir þeim samningum. Árið 2011 voru gerðar breytingar á lögum um Landsvirkjun sem fólust í því að sækja þarf sérstaklega um heimild ríkisins fyrir ríkisábyrgð á nýjum skuldbindingum Landsvirkjunar, sem er breyting á því sem áður var. Ef um ríkisábyrgð er að ræða þarf Landsvirkjun að greiða sérstakt ríkisábyrgðargjald hverju sinni. Afleiðusamningar Landsvirkjunar eru í dag án ríkisábyrgðar.

Frétt ESA

Frétt fjármála- og efnahagsráðuneytisins

Fréttasafn Prenta