Frétt

Endurnýjuð Gufustöð komin í fullan rekstur

31. október 2019
Gufustöðin í Bjarnarflagi eftir endurnýjun vélbúnaðar.
Vélasamstæða.
Gufuskilja.

Endurnýjuð Gufustöð í Bjarnarflagi hefur verið tekin í fulla notkun, en gamla vélin var stöðvuð í febrúar 2018 eftir áratuga rekstur. Hverfill stöðvarinnar var upphaflega tekinn i notkun í sykurverksmiðju í Bretlandi árið 1934 og því má segja að löngum lífsferli hans sé lokið, en Laxárvirkjun lét byggja Gufustöðina árið 1969 og eignaðist Landsvirkjun hana við sameiningu fyrirtækjanna árið 1983.

Verkefnið í Gufustöðinni sneri að uppsetningu á nýrri vélasamstæðu, þ.e. hverfli og rafala, ásamt endurnýjun á rafbúnaði stöðvarinnar og endurbótum á stöðvarhúsi. Samhliða var varmaskiptir fyrir rekstur hitaveitu Skútustaðahrepps endurnýjaður sem eykur afhendingaröryggi veitunnar mikið.

Brottnám á eldri búnaði hófst í mars 2018 og í framhaldinu var hafist handa við endurbætur á stöðvarhúsi. Uppsetning á vélbúnaði hófst í júnímánuði og gufu- og rakaskiljur voru settar upp fyrir árslok. Síðan þá hefur verið unnið að lokafrágangi. Samhliða var settur upp nýr vélarspennir á lóð Landsvirkjunar í Bjarnarflagi og tenging stöðvarinnar við dreifikerfi RARIK endurnýjuð.

Prófanir á endurnýjaðri stöð hófust í lok apríl og stöðin fór í rekstur um mitt sumar, þá á hálfu afli. Lokaprófanir fóru fram nú í haust og er stöðin nú komin í fullan rekstur. Með tilkomu endurnýjaðrar Gufustöðvar eykst afhendingaröryggi raforku í Mývatnssveit.

Ný aflvél nýtir sama gufumagn og sú eldri gerði, en þar sem nýtni hennar er mun betri en þeirrar gömlu er málafl nýju vélarinnar tæpum tveimur megavöttum meira en þeirrar eldri, eða 5 MW. Gefin hafa verið út nýtt starfsleyfi, endurnýjað virkjunarleyfi og nýtingarleyfi jarðhitaauðlindarinnar og er framtíð orkuvinnslu í Bjarnarflagi þar með tryggð um næstu framtíð.

Ásamt Landsvirkjun komu eftirtaldir verktakar að verkinu og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir árangursríkt samstarf:

  • Verkís ehf.: Ráðgjafi við stöðvarhús, raf- og vélbúnað.
  • Mannvit ehf.: Ráðgjafi við gufuveitu og skiljustöðvar.
  • Green Energy Geothermal (GEG): Aðalverktaki með hönnun, innkaup og uppsetningu aflvélarsamstæðu ásamt tilheyrandi stjórnbúnaði
  • Rafal ehf.: Verktaki með rafbúnað.
  • Trésmiðjan Rein: Verktaki með byggingaframkvæmdir.
  • Héðinn ehf.: Smíði og uppsetning á skiljum.
  • Útrás ehf.: Tenging á skiljum og gufuveitulögnum.
  • Blikkrás ehf.: Einangrun og klæðning á skiljum og gufulögnum.

… að ótöldum smærri verktökum sem voru ómissandi við hin ýmsu frágangsverkefni.

Fréttasafn Prenta