Frétt

Endurskoðað mat á umhverfisáhrifum Hvammsvirkjunar

24. maí 2017

Undanfarið eitt og hálft ár hefur verið unnið að endurskoðun mats á áhrifum Hvammsvirkjunar á tvo umhverfisþætti af tólf í samræmi við ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015. Nú liggja fyrir niðurstöður frummatsskýrslu og eru þær í samræmi við fyrra mat frá 2003, en á grundvelli þess féllst Skipulagsstofnun á framkvæmdina á sínum tíma.

Í frummatsskýrslunni er fjallað um fyrirhugaða virkjun og möguleg áhrif á fyrrnefnda tvo umhverfisþætti;

  1. útivist og ferðaþjónustu,
  2. landslag og ásýnd lands.

Ekki talið líklegt að ferðamönnum fækki að ráði með tilkomu Hvammsvirkjunar

Niðurstöður matsins eru þær að áhrif Hvammsvirkjunar á umhverfisþáttinn ferðaþjónustu og útivist séu óverulega neikvæð á öllu áhrifasvæði virkjunarinnar.

Ekki er talið líklegt að ferðamönnum á svæðinu muni fækka að ráði en 63% erlendra gesta og 53% Íslendinga álitu að Hvammsvirkjun myndi engin áhrif hafa á komu þeirra. Um 22% erlendra gesta og 38% Íslendinga á svæðinu töldu að þeir myndu síður koma og 15% erlendra gesta og 9% Íslendinga sögðust myndu frekar koma.

Með mótvægisaðgerðum er leitast við að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdar. Lagðar eru til sambærilegar mótvægisaðgerðir nú og árið 2003 varðandi áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Nánar má lesa um mótvægisaðgerðir hér.

Nánar um áhrif á útivist og ferðaþjónustu

Virkjunarmannvirki valda breytingum á landslagi

Heildaráhrif Hvammsvirkjunar á umhverfisþáttinn landslag og ásýnd lands eru metin óverulega neikvæð til talsvert neikvæð eftir því um hvaða landslagsheild er að ræða.

Mestu áhrifin verða þar sem virkjunarmannvirki eru staðsett og innan landslagsheilda sem liggja nálægt þeim mannvirkjun.  Áhrif á aðrar landslagsheildir innan áhrifasvæðis Hvammsvirkjunar eru talin óverulega neikvæð.

Með mótvægisaðgerðum er leitast við að koma í veg fyrir, draga úr eða bæta fyrir neikvæð umhverfisáhrif framkvæmdar. M.a. verður unnið að heildrænni ásýnd svæðisins með vandaðri útlitshönnun, landmótun, efnisvali, uppgræðslu og skógrækt. Til að viðhalda fjölbreytileika svæðisins verður unnið með lit, áferð og form mannvirkja og leitast verður við að milda áberandi manngerðar línur svo þær falli vel að landslagi. Nánar má lesa um mótvægisaðgerðir hér

Nánar um áhrif á landslag og ásýnd lands.

Rafræn skýrsla sýnir umhverfisáhrif á sjónrænan hátt

Frummatsskýrsla er mikilvægur hluti af vinnslu mats á umhverfisáhrifum en eftir útgáfu hennar er óskað eftir umsögnum og athugasemdum fagaðila og almennings. Landsvirkjun hefur gert útdrátt úr skýrslunni á rafrænu formi (svokallaða „non tech report“) sem sýnir á myndrænan hátt hver umhverfisáhrif Hvammsvirkjunar eru á þá tvo þætti sem til skoðunar eru.

Óskað eftir athugasemdum

Skipulagsstofnun auglýsir skýrsluna miðvikudaginn 24. maí og frestur til að skila athugasemdum er 6 vikur frá þeim degi. Landsvirkjun vekur athygli á því að öllum athugasemdum skal skila inn til Skipulagsstofnunar. Að loknum kynningartíma frummatsskýrslu verður tekin saman endanleg matsskýrsla að teknu tilliti til umsagna og athugasemda sem berast.

Áformað er að halda opin hús í Árnesi, Hellu (eða öðrum stað í Rangárþingi ytra) og í Reykjavík á kynningartíma skýrslunnar. Staðsetning og tímasetning opinna húsa verður auglýst síðar í svæðismiðlum og á vef verkefnisins.

Ástæða þess að endurtaka þurfti mat á umhverfisáhrifum að hluta

Í mati á umhverfisáhrifum virkjunarkosta er lagt mat á 12 umhverfisþætti. Þar sem framkvæmdir við virkjun höfðu ekki hafist 10 árum eftir úrskurðinn þurfti Skipulagsstofnun að ákveða hvort endurtaka ætti mat á umhverfisáhrifum að hluta eða í heild, og var niðurstaðan að meta þyrfti aftur áhrif á tvo þætti. Þeir þættir eru 1) útivist og ferðaþjónusta 2) landslag og ásýnd lands. Mat á áhrifum á hina tíu þættina stendur óbreytt frá 2004.

Ástæður þess að endurmeta þarf þessa tvo þætti er m.a. þróun sem orðið hefur á síðasta áratug í myndvinnslu og landslagsgreiningu, sem gerir okkur kleift að skoða betur og greina sjónræn áhrif virkjunar, auk þess sem ferðaþjónustan er stærri atvinnugrein en spár gerðu ráð fyrir árið 2004. Nýtt mat byggir á viðamiklum viðhorfskönnunum, tölvugerðum myndum sem sýna breytta ásýnd með virkjun og á landslagsgreiningu.
 

Frummatsskýrsluna og rafrænan útdrátt hennar er að finna á slóðinni hvammur.landsvirkjun.is

Fréttasafn Prenta