Engin tímamörk fyrir innkaup á raforku

25.11.2020Viðskipti

Tímamörk fyrir innkaup á raforku á heildsölumarkaði hafa verið afnumin og geta viðskiptavinir Landsvirkjunar nú óskað eftir að gera samninga hvenær sem er ársins. Áður voru samningar bundnir við almanaksárið að stórum hluta. Rafræni þáttur viðskiptanna verður einnig styrktur og geta nú viðskiptavinir í heildsölu gert samninga allt að 18 mánuði fram í tímann í gegnum viðskiptavef Landsvirkjunar, sem auðveldar viðskiptin um leið og aðgengi að upplýsingum um verð batnar til muna.

Heildsölumarkaður með raforku hefur tekið miklum breytingum sl. 3 ár. Með nýjum sölufyrirtækjum á markaðnum hefur samkeppnin aukist verulega. Þá hafa útboð á raforku á fyrirtækjamarkaði einnig færst í aukana, bæði hvað varðar fjölda útboða og magn raforku. Þessi þróun er afar jákvæð, en fyrir sölufyrirtækin þýðir þetta einnig að meiri óvissa ríkir í raforkuinnkaupum þeirra, sem gerir þeim óhægara um vik að gera áætlanir langt fram í tímann. Nánari upplýsingar um verð og vöruframboð í heildsölu má finna á vef Landsvirkjunar.

Meðalverð á raforku í heildsölu hefur haldist stöðugt síðustu ár líkt og sjá má á myndinni hér að ofan. Viðskiptavinir Landsvirkjunar á heildsölumarkaði eru nú sjö talsins og eru sumir jafnframt með eigin raforkuvinnslu. Þarfir og innkaupamynstur viðskiptavina er innbyrðis ólíkt sem endurspeglar mismunandi innkaupaverð.

Hér að neðan má sjá núgildandi verðskrá Landsvirkjunar fyrir næstu 18 mánuði.

Græn skírteini fyrir íslensk heimili og fyrirtæki

Í baráttunni við loftslagsbreytingar er einna brýnast að auka raforkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum. Sala á grænum skírteinum styður við þessa þróun þar sem auknu fjármagni er veitt í verkefni tengd uppbyggingu á grænni raforkuvinnslu. Ágóða Landsvirkjunar af sölu skírteinanna er þannig ráðstafað í að bregðast við aðsteðjandi loftslagsvanda. Græn skírteini fylgja með raforkusamningum Landsvirkjunar á heildsölumarkaði sem gerir heimilum og almennum fyrirtækjum kleift að fá vottun á endurnýjanlegum uppruna raforkunnar. Umhverfisvitund neytenda er sífellt að aukast og geta grænu skírteinin gefið íslenskum fyrirtækjum samkeppnisforskot í sölu og markaðssetningu á vörum sínum.