Frétt

Er Landsvirkjun of stór?

19. maí 2017

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, skrifaði grein í Morgunblaðið þann 17. maí, þar sem hann fjallaði um nýja raforkustefnu samtakanna og lýsti þeirri skoðun þeirra að minnka þyrfti markaðshlutdeild Landsvirkjunar á íslenskum raforkumarkaði og skapa skilyrði til samkeppni á markaðinum.

Því ber að fagna, að Samtök iðnaðarins láti sig skipan raforkumála varða. Almennt er hægt að taka undir með Almari, þegar hann segir að „samkeppni [sé] eitt besta tækið til að draga fram það besta og hagkvæmasta í atvinnustarfsemi. Þannig er hag kaupenda og seljenda best borgið og ábati samfélagsins hámarkaður.“

Og vissulega er rétt hjá honum að Landsvirkjun framleiðir um 70% af þeirri raforku sem framleidd er á Íslandi.  Það kann að þykja nokkuð hátt hlutfall, en við nánari skoðun kemur í ljós að málið er ekki svo einfalt og ekki er rétt að túlka þetta hlutfall sem markaðshlutdeild fyrirtækisins.

Raforkumarkaður á Íslandi er tvískiptur. Annars vegar er markaður fyrir stórnotendur, sem nota um 80% allrar orku sem unnin er í landinu. Hins vegar er heildsölumarkaður, þar sem orka er seld til sölufyrirtækja rafmagns – sem síðan selja orku til almennra fyrirtækja og heimila í landinu.

Stórnotendamarkaður – alþjóðlegur samkeppnismarkaður

Stórnotendamarkaður er samkeppnismarkaður. Þar er um að ræða fyrirtæki sem geta ráðið því hvar í veröldinni þau hafa starfsemi sína og þar eru orkuverð og öryggi orkusölusamninga ráðandi þættir. Landsvirkjun er bara smáfyrirtæki á þeim markaði, með hlutdeild upp á  brot úr prósenti. Því fer víðsfjarri að Landsvirkjun hafi markaðsráðandi stöðu gagnvart stórnotendum. Það er nánast hlægileg tilhugsun, því í flestum tilfellum er um að ræða stór, alþjóðleg fyrirtæki, sem eru fullfær um að gæta hagsmuna sinna. Enda er oft hart tekist á í samningaviðræðum, þar sem mikið er undir.

Þeir samningar sem undirritaðir hafa verið á undanförnum árum staðfesta að Landsvirkjun býður stórnotendum vel samkeppnishæft verð. Reyndar hefur eftirspurn eftir rafmagni frá Landsvirkjun verið meiri en fyrirtækið hefur getað annað, því nokkur fyrirtæki sem tilbúin hafa verið til að greiða uppsett verð hafa ekki getað fengið raforkusamninga. 

Stefna Landsvirkjunar hefur undanfarin ár verið að hækka verð til stórnotenda, þannig að verð sem þeir greiða sé helst sambærilegt við það sem býðst í nágrannalöndum okkar. Ekki óeðlilega hátt, en ekki heldur óeðlilega lágt. Það er vegna þess að við berum þá skyldu gagnvart eigendum okkar, íslensku þjóðinni, að hámarka afraksturinn af þeim orkulindum sem okkur er trúað fyrir.

Okkur hefur gengið vel á þeirri vegferð og erum stolt af því að hafa lækkað skuldir fyrirtækisins um yfir 100 milljarða og fjármagnað fyrirtækið án ríkisábyrgðar. Nú hillir undir að við höfum svigrúm til að auka arðgreiðslur til muna og búið er að ákveða að stofna Þjóðarsjóð, sem fengi þá fjármuni óskipta. Það er gríðarlegt hagsmunamál íslensku þjóðarinnar.

Heildsölumarkaður – verð ekki fylgt almennu verðlagi

Heildsölumarkaður með raforku; sala til almennra fyrirtækja og heimila, er annars eðlis. Þar var markaðshlutdeild Landsvirkjunar vissulega rúm 60% á síðasta ári, en hafa ber í huga að fyrirtækið ræður ekki eitt hlutdeild sinni á þessum markaði. Henni er einnig stjórnað af sölufyrirtækjum rafmagns, sem eru flest líka með sína eigin raforkuvinnslu, sem þau meta á hverjum tíma hvort nýtt er til sölu til stórnotenda eða í smásölu til heimila og fyrirtækja. Landsvirkjun er eina orkufyrirtækið á Íslandi  sem ekki rekur sitt eigið sölufyrirtæki. Ef vilji væri til þess að minnka markaðshlutdeild Landsvirkjunar á þessum markaði niður fyrir 50% þyrftu sölufyrirtækin eingöngu að nýta um 40 megavött af sinni eigin vinnslu til smásölu.  Til samanburðar má nefna að Búðarhálsvirkjun, sem er síðasta virkjun sem Landsvirkjun tók í rekstur, er 95 megavött.

Verð Landsvirkjunar til sölufyrirtækja rafmagns hefur ekki fylgt verðlagi á síðustu árum. Því er vandséð að aðstæður á þessum hluta markaðarins þurfi að vera áhyggjuefni Samtaka iðnaðarins; hvort sem litið er til markaðshlutdeildar Landsvirkjunar eða verðþróunar að undanförnu.

Hagsmunir íslensku þjóðarinnar

Landsvirkjun var stofnuð fyrir rúmlega 50 árum til þess að vera öflugur viðsemjandi við stórnotendur, með það markmið að skapa sem mest verðmæti fyrir íslensku þjóðina. Þá var samningsstaðan ekki sterk, en með tímanum hefur hún styrkst til muna og gert fyrirtækinu kleift að gæta hagsmuna eigenda sinna, íslensku þjóðarinnar, af síauknum krafti. Með því að skipta fyrirtækinu upp í smærri einingar væri verið að taka stórt skref afturábak í þeim efnum og veikja samningsstöðu Landsvirkjunar á stórum, alþjóðlegum samkeppnismarkaði.

Allri málefnalegri umræðu um skipan raforkumála ber að fagna. Við fyrstu sýn virðist þó þessi stefna Samtaka iðnaðarins, eins og hún er nú sett fram, að mestu snúast um að vinna gegn þeirri þróun sem er að verða um þessar mundir á sölu til stórnotenda, þar sem raforkuverð hefur farið hækkandi og færst nær því verði sem sömu fyrirtæki greiða í nágrannalöndum okkar. Við skulum vona að það sé misskilningur og oftúlkun, enda hafa Samtök iðnaðarins unnið gott starf í gegnum tíðina að ýmsum þjóðþrifamálum.

Fréttasafn Prenta