„Afkoma Landsvirkjunar á fyrri árshelmingi er lituð af erfiðu efnahagsástandi í heiminum um þessar mundir. COVID-19 faraldurinn hefur valdið samdrætti í eftirspurn hjá okkar helstu viðskiptavinum og sér þess merki í tekjum fyrirtækisins á tímabilinu, sér í lagi á öðrum fjórðungi ársins. Landsvirkjun hefur sem kunnugt er stutt við bakið á stórnotendum á þessum erfiðu tímum með því að bjóða þeim rafmagn á afsláttarkjörum til 31. október næstkomandi.
Selt heildarmagn raforku lækkaði um 6% milli ára og hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði dróst saman um 28% og nam 9,7 milljörðum króna. Þá lækkaði meðalálverð á tímabilinu um 13% og verð á Nord Pool-markaðinum um 75%, en hluti rafmagnsverðs til stórnotenda er tengdur þessum breytum. Þrátt fyrir þessar erfiðu ytri aðstæður tókst að lækka nettó skuldir um 8,4 milljarða króna frá áramótum. Horfur í rekstrarumhverfinu eru óvissar, en þær velta að miklu leyti á því hversu vel tekst að fást við útbreiðslu kórónuveirunnar og koma efnahagslífi heimsins í gang á ný.
Rekstur aflstöðva gekk vel á tímabilinu og vil ég þakka starfsfólki fyrirtækisins fyrir að leggja sig allt fram um að tryggja truflanalausan rekstur á meðan á þessum skæða faraldri hefur staðið.“
[1] Til viðmiðunar eru sýndar íslenskar krónur, notast var við gengi USD/ISK 139.
Viðhengi: Fréttatilkynning
Viðhengi: Árshlutareikningur